Upp­gjörið: Valur - Stjarnan 1-3 | Stjarnan lyftir sér upp í fjórða

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Stjarnan hrósaði sigri í kvöld.
Stjarnan hrósaði sigri í kvöld. Vísir/Getty

Valur tók á móti Stjörnunni í loka leik 21. umferð Bestu deild kvenna - Efri hluta í kvöld. Fjórða sæti deildarinnar var í boði og var það Stjarnan sem lyfti sér upp í fjórða sætið með góðum 1-3 sigri á N1 vellinum í kvöld.

Leikurinn fór heldur rólega af stað þar sem bæði lið voru svolítið að þreifa fyrir hvort öðru fyrst um sinn. Stjarnan fékk fyrsta færi leiksins en á 10. mínútu leiksins kom góð stungusending inn fyrir vörn Vals á Snædísi Maríu Jörundsdóttir en hún náði ekki að koma boltanum á markið. Frábært færi sem Stjarnan fékk.

Það dró til tíðinda á 29. mínútu leiksins en þá var frábært spil hjá Stjörnunni sem sundurspilaði vörn Vals og Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir braut ísinn og kom Stjörnunni yfir.

Strax í næstu sókn fékk Valur hornspyrnu og markaskorari Stjörnunnar, Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir gerðist þá sek um að brjóta á Önnu Rakel Pétursdóttur innan teigs og vítaspyrna dæmd. Anna Rakel fór sjálf á punktinn en lét Bridgette Nicole Skiba verja frá sér vítaspyrnuna.

Stjarnan var með nokkra yfirburði lengst af í fyrri hálfleiknum. Það var svo á 41. mínútu leiksins þar sem Arnfríður Auður Arnarsdóttir varð fyrir því óláni að renna með boltann á miðjum velli og nýtti Stjarnan það sér og keyrðu upp hraða sókn. Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir átti svo frábæra sendingu fyrir markið þar sem Snædís María Jörundsdóttir potaði knettinum í markið og Stjarnan búnar að tvöfalda forystu sína.

Tveimur mínútum síðar á markamínútunni sótti Valur upp völlinn. Jasmín Erla Ingadóttir komst í fínt færi en setti boltann í varnarmann og hann skaust upp í loft en endaði hjá Jordyn Rhodes sem kláraði færið vel og minnkaði muninn í 2-1 rétt fyrir hálfleik.

Stjarnan kom með krafti út í síðari hálfleik og á 52. mínútu bættu þær við sínu þriðja marki þegar Birna Jóhannsdóttir átti frábæra fyrirgjöf fyrir markið á Snædísi Maríu Jörundsdóttir og hún skoraði sitt annað mark í leiknum.

Stjarnan fékk svo sannarlega færin til þess að bæta við fleiri mörkum og Valsliðið líka sérstaklega í lokin en fleiri urðu mörkin ekki leiknum lauk með frábærum útisigri Stjörnunnar 1-3.

Atvik leiksins

Annað mark Stjörnunnar var afar laglegt og frábærlega útfærð skyndisókn. Eftir annað mark Stjörnunnar fannst manni þetta aldrei í hættu.

Stjörnur og skúrkar

Snædís María Jörundsdóttir skoraði tvö og var óheppin að ná ekki þrennunni. Var frábær í leiknum í dag. Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir skoraði og lagði upp fyrir Stjörnuna í kvöld og var líka öflug. Bridgette Nicole Skiba varði víti og átti góðar vörslur svo hún fær líka sín blóm hérna.

Dómararnir

Guðni Páll Kristjánsson var dómari leiksins og honum til aðstoðar voru Guðni Freyr Ingvason og Kristofer Bergmann.

Heilt yfir bara þokkalega dæmdur leikur. Ekki erfiður leikur að dæma þannig séð en ég held að helstu ákvarðanir í kvöld hafi verið réttar.

Stemingin og umgjörð

Það var alvöru tvíhöfði á N1 vellinum í kvöld en á sama tíma og þessi lið mættust voru karlalið Vals og Tindastóls að etja kappi á parketinu í Bónus deild karla. Það hefði verið skemmtilegra að sjá fleiri í stúkunni í kvöld en fullt hrós á alla þá sem mættu. Umgjörðin féll svolítið í skugga körfuboltans en frábært veður bætti það svo sannarlega upp hér í kvöld.

Viðtöl

Jóhannes Karl Sigursteinsson þjálfari Stjörnunnar.vísir / pawel

„Við erum með vel spilandi lið“

„Mér fannst þetta vel spilaður leikur. Við komum inn í hann rétt stemmdar“ sagði Jóhannes Karl Sigursteinsson þjálfari Stjörnunnar eftir sigurinn í kvöld.

„Eiginlega frá fyrstu mínútu fannst mér við vera aggressívari og vorum að skapa og búa til. Eigum haug af færum en þær fá sína sénsa líka og Bridgette ver víti en heilt yfir þá fannst mér við sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og framan af seinni“

Stjarnan spilaði á tíðum frábæran fótbolta og áttu oft kannski full auðvelt með að komast í færi.

„Mér fannst við virkilega hreyfanlegar og vorum að hreyfa okkur hratt, vorum að láta boltann ganga hratt og við erum með vel spilandi lið“

„Valur koma kannski ekki inn af þeirri ákefð sem að þær hefðu þurft að koma með en ég held að heilt yfir hafi spilamennskan okkar verið bara virkilega góð í dag“ sagði Jóhannes Karl Sigursteinsson.

Matthías Guðmundsson þjálfari Vals.Vísir/Diego

„Erum að fá alltof ódýr mörk á okkur í leikjum“

„Mér fannst Stjarnan eiga lengri kafla í leiknum sem að voru betri og þessvegna áttu þær sigurinn skilið“ sagði Matthías Guðmundsson þjálfari Vals eftir tapið í kvöld.

„Ég er ánægður með það kannski miðað við leikinn á undan að við fengum fleiri færi heldur en í þeim leik en við erum að fá alltof ódýr mörk á okkur í leikjum“

Þrátt fyrir slæm úrslit er hægt að taka eitthvað jákvætt úr þessari frammistöðu hjá Val. 

„Ég á eftir að horfa á leikinn aftur og ég finn alltaf eitthvað þegar ég horfi á leikinn en kannski er slæmi kaflinn aðeins of langur. Ég hefði viljað hafa góða kaflan lengri í leiknum. Þá hefðum við kannski getað gert meira en mér finnst leikurinn allavega betri heldur en leikurinn á undan“

Valur var að komast í stöður en vantaði bara örlítið upp á. Þetta virkaði oft mjög erfitt hjá Val í kvöld.

„Já kannski. Við fáum nátturlega víti og dauðafæri í fyrri hálfleik sem að eiga alveg að vera mörk. Það svíður kannski meira en mörkin sem að við fáum á okkur en auðvitað þarf maður að vera góður á báðum teigum vallarins til að eiga möguleika“ sagði Matthías Guðmundsson.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira