Upp­gjörið: Breiða­blik 3-2 Víkingur | Breiða­blik Ís­lands­meistari 2025

Valur Páll Eiríksson skrifar
Blikakonur fagna í leikslok.
Blikakonur fagna í leikslok. Vísir/Ernir

Breiðablik er Íslandsmeistari kvenna í fótbolta eftir 3-2 sigur á Víkingi í Bestu deild kvenna á Kópavogsvelli í kvöld. Það þurfti þrjár tilraunir til en loks er það ljóst að Breiðablik ver titil sinn síðar í fyrra.

Breiðablik hafði klúðrað tveimur tækifærum til þess að verða meistari með töpum fyrir Stjörnunni og Þrótti í síðustu tveimur leikjum. Allt er þegar þrennt er sagði Nik Chamberlain, þjálfari Blika, sjálfsöruggur fyrir leik.

Það byrjaði þó ekki vel. Linda Líf Boama kom Víkingi yfir snemma leiks þegar vörn Blika var úti á þekju. Leikurinn var fram og til baka og mikil skemmtun en eftir því sem leið á hertu Blikakonur tökin.

Loks kom markið eftir tæplega hálftíma leik þegar Birta Georgsdóttir hælaði boltann inn á nærstönginni eftir hornspyrnu Öglu Maríu Albertsdóttur frá vinstri. Strax í næstu sókn komst Víkingur aftur yfir þökk sé stórkostlegu skoti Kristínar Erlu Johnsen af um 20 metra færi sem söng í samskeytunum.

Það var aðeins þremur mínútum eftir það sem Birta skoraði sitt annað mark, hennar seytjánda í sumar, og staðan jöfn í hléi.

Klippa: Öðruvísi fyrir Kristínu án systur sinnar

Breiðablik stýrði ferðinni eftir hlé og uppskar mark þegar Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði sitt 23. mark í sumar. Það dugði fyrir sigrinum þrátt fyrir tvö dauðafæri Víkinga í lokin.

Í því síðara bjargaði Kate Devine frábærlega á ögurstundu er hún slæmdi fæti í skalla Lindu Lífar Boama af markteig eftir hornspyrnu.

Breiðablik vann 3-2 og Nik hafði rétt fyrir sér. Þriðja tilraunin var til happs og Breiðablik Íslandsmeistari annað árið í röð, meistari í tuttugasta sinn og jafnframt tvöfaldur meistari eftir að hafa unnið bikarkeppnina fyrr í sumar.

Atvik leiksins

Áðurnefnd markvarsla Kate Devine skipti sköpum í kvöld. Án hennar væru Blikar ekki að fagna titli.

Klippa: Agla María eftir Íslandsmeistaratitilinn

Stjörnur og skúrkar

Birta Georgsdóttir var frábær í kvöld og Sammie Smith sömuleiðis öflug fram á við að venju. Berglind Björg skorar sigurmarkið og var öflug í uppspili í fremstu línu.

Þær Berglind og Birta hljóta báðar að banka hressilega á dyr Þorsteins Halldórssonar inn í landsliðið.

Dómararnir

Fátt út á Þorfinn Gústaf Þorfinnsson og félaga að setja í kvöld.

Stemmning og umgjörð

Rúmlega fimmhundruð manns lögðu ferð sína í Kópavog. Heyrðist mest í krakkaskaranum framan af leik en heldri menn tóku við sér á spennandi lokakafla þegar Víkingar pressuðu á Blika undir lokin.

Smitandi gleði og hamingja í leikslok er titillinn var tryggður.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira