Upp­gjörið: FH - Breiða­blik 1-1 | Fjörugum og við­burðar­ríkum leik lauk með jafn­tefli í Krikanum

Hjörvar Ólafsson skrifar
515935930_10162826424122270_305408987422761798_n
vísir/ernir

FH og Breiðablik skildu jöfn, 1-1, þegar liðin leiddu saman hesta sína í 23. umferð Bestu-deildar karla í fótbolta á Kaplakrikavöll í dag.

FH-ingar voru ívið sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og komust nær því að ná forystunni. Sigurður Bjartur Hallsson komst í góða stöðu í upphafi leiksins en ákvað að senda boltann í stað þess að skjóta og sóknin rann út í sandinn.

Ísak Óli Ólafsson komst næst því að brjóta ísinn og skora í fyrri hálfleik en skalli hans eftir hornspyrnu Kjartans Kára Halldórssonar fór ofan á þverslána.

Böðvar Böðvarsson og Kjartan Kári Halldórsson fengu sömuleiðs góð færi en náðu ekki að koma boltanum yfir línuna og í netmöskvana. Anton Ari Einarsson varði síðan skalla Sigurðar Bjarts skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks.

Mesta hættan kom hjá Blikum var þegar þeir náðu að finna Ágúst Orra Þorsteinsson í stöðunni milli miðju og varnar hjá FH-liðinu. Það var einmitt eftir fyrirgjöf frá Ágústi Orra sem Breiðablik fékk besta færið sitt í fyrri hálfleik en Ágúst fann Óla Val Ómarsson með sendingu sinni en skot hans fór í vanarmann og lak þaðan framhjá stönginni.

Mathias Brinch Rosenorn varði svo skalla Damir Muminovic vel og Tobias Thomsen var nokkrum sinnum nálægt því að koma sér í færi og færa sér fyrirgjafir samherjar sinna í nyt.

Tómas Orri Róbertsson, fyrrverandi leikmaður Breiðabliks, gerði sínum fyrrum félögum grikk þegar hann kom FH yfir í upphafi seinni hálfleiks.

Baldur Kári Helgason gerði þá mjög vel þegar hann komst í góða stöðu af harðfylgi og renndi boltanum á Tómas Orra sem skoraði með hnitmiðuðu skoti.

Sigurður Bjartur slapp í gegn eftir rúmlega klukkutíma leik og fékk kjörið tækifæri til þess að tvöfalda forystu heimamanna en Anton Ari gerði vel að hrifsa boltann af tánum á Sigurði áður en hann náði að láta skotið ríða af.

Kristinn Steindórsson, sem kom inná sem varamaður um miðjan seinni hálfleik, fékk gott skotæri um það bil stundarfjórðungi fyrir leikslok. Kristinn Jónsson sendi þá boltann á nafna sinn sem var staddur við D-bogann en skot Kristins Steindórssonar fór yfir mark FH.

Skömmu síðar gat Sigurður Bjartur farið langleiðina með að gera út um leikinn en aftur sá Anton Ari við honum núna með því að loka á skot hans af stuttu færi.

Anton Logi Lúðvíksson, sem spilaði síðasta hálftímann fyrir Blika, var nálægt því að skora stókostlegt mark um tíu mínútum fyrir lok leiksins. Anton Logi, sem var að spila sínar fyrstu mínútur eftir að hafa glímt við meiðsli í tæpa tvo mánuði, skaut fyrir utan vítateig og boltinn stefndi í samskeytin en Mathias Rosenorn kom í veg fyrir að Anton Logi jafnaði metin með meistaralegri markvörslu.

Undir lok leiksins sá annar varamaður, Guðmundur Magnússon, til þess að Blikar fóru með eitt stig með sér úr Kaplakrika. Kristinn Jónsson sendi þá hárnákvæma fyrirgjöf sem rataði á ennið á Guðmundi sem stangaði boltann í netið.

Mathias Rosenorn fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt fyrir stimpingar við Ágúst Orra sem var að reyna að ná í boltann í netið og koma boltanum hratt á miðjuna.

FH-ingar voru búnir með skiptingar sínar þannig að Sigurður Bjartur tók það á sig að fara í markið og leysti það verkefni bara með glæsibrag. Varði meðal annars fast skot Kristins Jónssonar á lokaandartökm leiksins.

Niðurstaðan 1-1 jafntefli í fjörugum leik sem bauð upp á margt skemmtilegt.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira