Innlent

Vítamínmarkaðurinn á Ís­landi eins og villta vestrið

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Beta Reynisdóttir næringarfræðingur.
Beta Reynisdóttir næringarfræðingur. Vísir/Samsett

Næringarfræðingur segir vítamínmarkaðinn á Íslandi vera orðinn eins og villta vestrið og leggur áherslu á gagnrýna hugsun neytenda. Mikið af vítamíni sem er til sölu sé með alls kyns aukaefnum sem geta verið skaðleg í miklu magni. Það mikilvægasta sé að borða fjölbreyttan og næringarríkan mat í stað þess að leita auðveldra lausna í töfluformi.

„Það er málið, það er rosalega erfitt að átta sig á vítamínbransanum núna, það eru allir og ömmur þeirra byrjaðir að framleiða vítamín. Þetta er orðið pínu hættulegur bransi með það að gera, þetta eru oftast töflur og það eru aukaefni í þessu sem geta haft skaðleg áhrif. Þannig við verðum líka að vera svolítið gagnrýnin á hvað við gerum,“ segir Beta Reynisdóttir næringarfræðingur í viðtali í Reykjavík síðdegis.

Áttatíu prósent af vítamínum í verslunum landsins séu fullar af aukaefnum sem geti verið skaðlegar í miklu magni. Íslendingar séu hins vegar hrifnir af einfölum lausnum, líkt og að taka vítamín í töfluformi í stað þess að fá þau úr fjölbreyttum og næringarríkum mat. Árlega haustflensan leiði hins vegar til þess að Íslendingar leita í auknum mæli í vítamín.

„Það er fullt af vítamínum sem virka og auðvitað má grípa í ef þið teljið að þið séuð með gott merki og ef þið treystið því. En ekki rjúka bara út í búð og grípa eitthvað glas af vítamíni, reynið að kanna hvað það er sem er verið að selja ykkur,“ segir hún.

D-vítamín nauðsynlegt

Beta leggur jafnframt mikla áherslu á mikilvægi þess að taka D-vítamín, sem hafi áhrif á bæði ónæmiskerfið og hormónakerfið. Hins vegar sé mikilvægt að falla ekki í þá gildru að taka of stóra skammta, fólk taki oft of mikið magn vítamína án þess að gera sér grein fyrir afleiðingunum.

„Ef þau eru að taka stóra skammta af D-vítamíni mæli ég með að þau taki K2-vítamín með. Aðalmálið er að þegar þú tekur inn stóra skammta af D-vítamíninu nýtir þú kalk og þá er verið að hreinsa kalkið úr beinunum og þá kemur K-vítamínið líkamanum í jafnvægi með að setja kalkið aftur í beinin.“

Ráðlagður dagskammtur D-vítamíns eru þúsund alþjóðaeiningar og segist Beta sem starfandi næringafræðingur ekki mega mæla með hærri skömmtum.

„En ég get sagt þér að ég tek um tvö til fjögur þúsund alþjóðaeiningar á dag og ég mælist ekkert eitthvað rosalega há í D-vítamíni, það er það sem ég get sagt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×