Fótbolti

Reiður eftir að Yamal var látinn taka verkja­lyf til að geta spilað

Sindri Sverrisson skrifar
Lamine Yamal brosmildur í landsleiknum gegn Tyrklandi, sem Spánn vann 6-0.
Lamine Yamal brosmildur í landsleiknum gegn Tyrklandi, sem Spánn vann 6-0. Getty/Ahmad Mora

Hansi Flick, þjálfari Barcelona, er hundóánægður með meðferðina sem hinn ungi Lamine Yamal fékk hjá spænska landsliðinu í nýafstöðnu landsleikjahléi.

Yamal var ekki með á æfingu Börsunga í dag vegna bakmeiðsla og Flick staðfesti svo á blaðamannafundi að þessi 18 ára stjörnuleikmaður yrði ekki með gegn Valencia á morgun. Mögulega missir hann einnig af fyrsta leiknum í Meistaradeild Evrópu, gegn Newcastle á fimmtudagskvöld.

Flick kennir landsliðsþjálfara Spánverja, Luis de la Fuente, um stöðuna. Yamal átti samtals þrjár stoðsendingar í 3-0 og 6-0 útisigrum gegn Búlgaríu og Tyrklandi, 4. og 7. september.

„Hann [Yamal] spilaði með landsliðinu þrátt fyrir að finna fyrir sársauka og fékk verkjalyf til að geta spilað. Hann spilaði 79 og 73 mínútur með þessi eymsli og án þess að æfa á milli leikja. Þarna er ekki verið að hugsa um hag leikmannanna,“ sagði Flick við blaðamenn.

„Mér finnst spænska landsliðið vera með frábæran hóp, bestu leikmenn heims, en þeir passa ekki upp á leikmennina og það hryggir mig,“ sagði Flick.

Hann var svo spurður að því hvort hann hefði rætt málið við spænska landsliðsþjálfarann:

„Ég hef aldrei talað við hann, bara skipst á skilaboðum. Spænskan mín er ekki mjög góð og ekki heldur enskan hans, en þegar allt kemur til alls þá gætu samskiptin verið betri. Við erum ekki bara með einn leikmann, þeir eru fleiri,“ sagði Flick.

„Ég hef verið í þessari stöðu sjálfur og samskiptin við félagsliðin verða að vera góð,“ bætti han við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×