Upp­gjör: KR-Stjarnan 1-2 | Örvar kom Stjörnunni inn í titilbaráttuna

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Stjörnumenn fögnuðu í kvöld.
Stjörnumenn fögnuðu í kvöld. Vísir/Diego

KR tapaði fyrir Stjörnunni á Meistaravöllum í tuttugustu umferð Bestu deildar karla í dag. Örvar Eggertsson, leikmaður Stjörnunnar var sjóðheitur í dag og skoraði bæði mörk gestanna. Þrjú mikilvæg stig fyrir Stjörnuna sem eru nú í harðri baráttu um Evrópusæti.

Gestirnir byrjuðu af krafti og komust strax yfir á áttundu mínútu leiksins þegar Örvar Eggertsson nýtti sér mistök í vörn KR og skoraði fyrsta mark leiksins.

KR skapaði sér fjölda færa, en þrátt fyrir mikla yfirburði tókst þeim ekki að koma boltanum í netið. Staðan því 0-1 í hálfleik.

Heimamenn komu út í seinni hálfleik í sama gír og tók þá einungis þrjár mínútur að jafna leikinn. Þeir héldu áfram að ógna marki gestanna en skorti nákvæmni í síðasta þriðjungi vallarins sem kom í veg fyrir frekari mörk.

Stjörnumenn gáfust ekki upp og komu sér aftur inn í leikinn. Þeir náðu aftur forystunni á 87. mínútu þegar Örvar Eggertsson skallaði boltann í netið eftir hornspyrnu og tryggði Stjörnunni þar með sigurinn.

Með sigrinum fer Stjarnan upp í þriðja sæti deildarinnar og heldur þar með áfram góðu gengi. Liðið hefur snúið við blaðinu á undanförnum vikum og er nú komið í harða baráttu um toppsæti.

Frammistaða KR-inga í leiknum var í raun ágæt, en skortur á nýtingu færanna og veikleikar í vörninni voru þeim dýrkeypt. Þjálfari liðsins, Óskar Hrafn Þorvaldsson stendur frammi fyrir erfiðu verkefni. Liðið þarf að fara að skora mörk ef þeir ætla að forðast fall í lok tímabils.

Atvik leiksins

Daníel Finns meiddist á 38. mínútu og þurfti að yfirgefa völlinn á börum. Það dró aðeins úr krafti Stjörnunnar eftir skiptinguna en náði KR ekki að nýta sér það.

Seinna mark Stjörnunnar gerði það að verkum að heimamenn fóru í einskonar örvæntingarham og lögðu allt í að jafna leikinn, en án árangurs.

Stjörnur og skúrkar

Örvar Eggertsson flottur í dag hjá Stjörnunni, tvö mikilvæg mörk frá honum sem tryggði Stjörnunni sigurinn.

Dómarar

Jóhann Ingi Jónsson var á flautunni í dag, með honum á hliðarlínunum voru Ragnar Þór Bender og Kristján Már Ólafs. Eftirlitsmaður var Halldór Breiðfjörð Jóhannesson og varadómari Elías Ingi Árnason. Jóhann dæmdi leikinn vel í dag, engin vafamál og ekkert vesen.

Örvar Eggertssonvísir/Diego

Örvar Eggertsson: Tökum þessa þrjá punkta og förum brosandi heim

Stjarnan sigraði KR á Meistaravöllum í 20. umferð Bestu deildar karla í dag. Örvar Eggertsson skoraði bæði mörk Stjörnunnar eftir föst leikatriði.

„Það var fínt að skora tvö mörk í dag eftir hornspyrnu, það var gaman. Við vorum ekki góðir í dag. Ég var mjög ósáttur með spilamennskuna. Við tökum þessa þrjá punkta, sterka punkta og förum brosandi heim,“ sagði Örvar Eggertsson, markaskorari Stjörnunnar, eftir leikinn í dag.

Með sigrinum í dag lyfti Stjarnan sér upp fyrir Breiðablik í 3. sætið. Góðu gengi Stjörnunnar heldur því áfram og er liðið að blanda sér í titilbaráttuna.

„Næsti leikur er við KA og við hugsum bara um hann. Við tökum einn leik í einu og hugsum um okkur sjálfa.“

Jökull Elísabetarsonvísir/Ernir

Jökull Elísabetarson: Förum ekki hærra með svona frammistöðu

Stjarnan sigraði KR 2-1 á Meistaravöllum í 20. umferð Bestu deildar karla í dag. Stjarnan var hreint út sagt þó ekki sannfærandi með frammistöðu sinni í dag.

„Ég er ánægður með sigurinn og stigin. Frammistaðan er ekki það sem situr eftir hjá mér. Við getum ekki spilað mikið fleiri mínútur svona eins og í dag.“ sagði Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, eftir sigur liðsins gegn KR í dag.

„KR voru betri meiri hluta leiksins í dag þó ekki allan tíman. Hluti af því liggur hjá mér og hluti hjá liðinu. Við þurfum saman að gera eitthvað betra og skemmtilegra næstu helgi.“ sagði Jökull.

„Taktískir hlutir og lágt orkustig er það sem við þurfum að skoða. Við leyfðum þeim að svæfa okkur. Þá sofnum við og hættum að pæla í hlaupunum þeirra. Þá komust þeir upp völlinn og í árása stöður.“ sagði Jökull.

Stjarnan er nú komið í 3. sæti með þrjá sigra á bakinu. Góðu gengi liðsins heldur áfram og er stefnan sett hærra en þriðja sæti.

„Við ætlum hærra, þriðja sætið er ekki nóg. Við getum þó ekki að verið að horfa allt of hátt eftir þennan leik. Við förum ekki hærra með svona frammistöðu. Fullur fókus hjá okkur núna að nýta vikuna vel og gíra okkur vel upp í næsta leik.“ sagði Jökull.

Óskar Hrafn Þorvaldsson.Vísir/Diego

Óskar Hrafn Þorvaldsson: Stundum hata ég fótbolta

KR tapaði gegn Stjörnunni 1-2 á Meistaravöllum í 20. umferð Bestu deildar karla í dag. KR-ingar fengu ótalmörg marktækifæri sem þeir náðu ekki að nýta. KR er sem stendur í 10. sæti með 23 stig og þarf Óskar, þjálfari liðsins, að finna einhverja lausn ætli þeir að koma sér úr fallbaráttunni.

„Ég er sannarlega ósáttur með að taka ekki stig úr þessum leik. Það var eitt lið á vellinum í 90 mínútur. Sorglegt að við skulum ekki nýta eitt eða tvö eða þrjú af þessum fjölmörgu færum sem við fáum.“ sagði Óskar Hrafn, þjálfari KR, svekktur eftir leikinn.

„Heilt yfir fannst mér frammistaðan frábær, bæði varnarlega og sóknarlega. Þeir komust varla að markinu okkur í 90 mínútur, nema nokkru sinnum með föstum leikatriðum. Ég sit með eftir með tilfinningu eftir leikinn þar sem ég er stoltur af liðinu. Ég er stoltur af frammistöðunni, framlaginu og dugnaðinum í þessu liði.“ sagði Óskar.

Stjarnan skapaði sér ekki mörg færi í þessum leik, en tókst engu að síður að skora tvö mörk úr föstum leikatriðum. Óskar var spurður hvort þessi mörk bendi til veikleika liðsins í föstum leikatriðum eða hvort hæð leikmanna hans hafi áhrif í varnarleiknum.

„Ég held þetta sé ekki veikleiki í okkar liði. Það gefur auga leið að þegar þú ert aðeins minni þá þarftu að beita öðruvísi brögðum við að dekka menn inni í teig. Við þurfum að vera betri í því, en einfaldasta leiðin til að verjast því, er að vera ekki að gefa hornspyrnur.“

„Stundum hata ég fótbolta, en þetta er bara svona. Í grunninn líður mér betur en eftir Fram leikinn. Ég sá liðið mitt í dag, ég sá hugrekki og dugnað. Það er meira að byggja ofan á í þessum leik og við tökum það með okkur á Ísafjörð á sunnudaginn.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira