Sport

Fóru af hjörunum eftir að ljós­myndari fór inn á

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Daniil Medvedev er úr leik á Opna bandaríska meistaramótinu í tennis.
Daniil Medvedev er úr leik á Opna bandaríska meistaramótinu í tennis. getty/Elsa

Ljósmyndari kom mikið við sögu þegar Daniil Medvedev tapaði fyrir Benjamin Bonzi í 1. umferð á Opna bandaríska meistaramótinu í tennis.

Bonzi fékk tækifæri til að tryggja sér sigurinn í 3. setti en þegar hann freistaði þess fór ljósmyndari inn á völlinn. Og við það breyttist andrúmsloftið á staðnum.

Medvedev var brjálaður út í dómarann Greg Allensworth fyrir að leyfa Bonzi að gefa aftur upp og gera þurfti sex og hálfs mínútna hlé á leiknum. Áhorfendur létu óánægju sína í ljós og studdu við bakið á Medvedev.

Bonzi var ekki sáttur og bað dómarann um að refsa Medvedev fyrir tafir. Þegar hann gat loksins gefið upp eftir alla biðina mistókst honum að tryggja sér sigurinn.

„Þetta voru klikkaðar aðstæður. Ég hef aldrei upplifað annað slíkt. Það var svo erfitt að spila, svo mikill hávaði. En ég reyndi að vera rólegur sem var ekki auðvelt,“ sagði Bonzi.

Eftir þessa skraulegu uppákomu náði Bonzi sér aftur á strik, kláraði leikinn og nældi sér þar með í farseðil í 2. umferð Opna bandaríska.

Ljósmyndarinn var leiddur út af Louis Armstrong vellinum í New York og leyfi hans til að starfa á Opna bandaríska var afturkallað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×