Erlent

Evrópuleiðtogar fylkja liði í Hvíta húsið

Agnar Már Másson skrifar
Í þetta sinn verður Selenskí ekki einn síns liðs þar sem Evrópuleiðtogar ætla að slást í hópinn með honum.
Í þetta sinn verður Selenskí ekki einn síns liðs þar sem Evrópuleiðtogar ætla að slást í hópinn með honum. AP

Forsætisráðherra Íslands mun ekki sækja fund Bandaríkjaforseta og Úkraínuforseta í Hvíta húsinu í persónu en fjöldi þjóðarleiðtoga í Evrópu úr röðum „bandalags hinna viljugu“ er á leið til sækja fundinn á morgun eftir að hafa fengið boð frá Donald Trump Bandaríkjaforseta.

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti og Trump áttu í morgun, mánudag, sitja fund í Hvíta húsinu í framhaldi af fundi Trump með Vladimír Pútín Rússlandsforseta sem haldinn var í Alaska á föstudag í von um að stilla til friðar í innrásinni í Úkraínu. Í kjölfarið tilkynntu Trump og Selenskí að þeir hygðust funda á mánudag

Í dag kom svo í ljós að fjöldi Evrópuleiðtoga ætlar að slást í hópinn með Selenskí.

Keir Starmer forsætisráðherra Breta, Giorgia Meloni forsætisráðherra Ítalíu, Friedrich Merz Þýskalandskanslari, Alexander Stubb Finnlandsforseti, Emmanuel Macron Frakklandsforseti, Mark Rutte framkvæmdastjóri Nató og Ursula von der Leyen forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins munu öll sitja fundinn að því er breska ríkisútvarpið hefur staðfest.

Ísland er einnig í bandalagi hinna viljugu en Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra mun ekki sækja fundinn í persónu, staðfestir Kristín Ólafsdóttir aðstoðarmaður ráðherra. Óljóst er hvort hægt verði að sækja fundinn með fjarfundarbúnaði.

Kristrún sat í dag fund bandalagsins í gegnum fjarfundarbúnað, að sögn aðstoðarmannsins, en Selenskí og von der Leyen áttu síðan tvíhliða fund í Brussel í Belgíu í dag.

Selenskí sagði á blaðamannafundi á fundinum að það færi gegn stjórnarskrá Úkraínu að skiptast á landsvæðum, eins og Pútín hefur krafist. Kvaðst hann vonast eftir því að heimsóknin til Bandaríkjanna yrði árangursrík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×