Veður

Þung­búið norðan­til en bjart og hlýtt sunnan heiða

Atli Ísleifsson skrifar
Óvenju hlýtt loft berst til okkar um helgina með strekkings suðvestanátt.
Óvenju hlýtt loft berst til okkar um helgina með strekkings suðvestanátt. Vísir/Anton

Veðurstofan gerir ráð fyrir rólegu veðri í dag þar sem verður þungbúið og sums staðar lítilsháttar væta fyrir norðan og fremur svalt, en sunnan heiða bjart og hlýtt.

Á vef Veðurstofunnar segir að það verði norðlæg átt, þrír til átta metrar á sekúndu, en aðeins hvassara austast fram yfir hádegi.

Hiti verður sjö til sautján stig og hlýjast sunnanlands, en svalast fyrir norðan.

„Vestan gola eða kaldi á morgun með skúrum aðallega norðantil á landinu, en syðra að mestu þurrt. Milt veður.

Óvenju hlýtt loft á svo að berast til okkar um helgina með strekkings suðvestanátt. Það verður þungbúið og fremur blautt vestanlands og því nær hitinn engum hæðum þar, en austanlands verður bjartara veður og hlýtt,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Spákort fyrir klukkan 14.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag: Vestlæg átt 5-10 m/s og skúrir, einkum norðantil, en bjart á Suðausturlandi. Hiti 8 til 18 stig, hlýjast á Suðausturlandi.

Á föstudag og laugardag: Suðvestan 8-15, hvassast norðvestantil. Rigning, en lengst af þurrt austanlands og jafnvel bjart á laugardag. Hiti 10 til 20 stig, hlýjast austanlands og hlýnar enn frekar þar á laugardag.

Á sunnudag: Svipað veður, en dregur heldur úr vindi. Áfram hlýtt og bjart fyrir austan.

Á mánudag: Hæg vestlæg átt. Bjart með köflum suðaustanlands, annars skýjað að mestu en úrkomulítið. Hiti 10 til 19 stig, hlýjast suðaustanlands.

Á þriðjudag: Hæga norðlæg eða breytileg átt, skýjað, úrkomulítið og svalt fyrir norðan, en bjartara og mildara syðra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×