Sport

Bæði lið stóðu saman í hring þar til leiknum var af­lýst

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Detroit Lions og Atlanta Falcons stóðu saman í hring og leyfðu klukkunni að renna út.
Leikmenn Detroit Lions og Atlanta Falcons stóðu saman í hring og leyfðu klukkunni að renna út. Getty/Todd Kirkland

Æfingarleik NFL liðanna Detroit Lions og Atlanta Falcons var hætt í nótt eftir að leikmaður Detroit Lions varð fyrir óhugnanlegum meiðslum.

Varnarmaðurinn Morice Norris fékk þá slæmt höfuðhögg þegar hann reyndi að tækla hlaupara Atlanta og lá hreyfingarlaus eftir. Höfuð hans skall aftur og hann missti meðvitund.

Leikurinn var stöðvaður í tuttugu mínútur á meðan hugað var að Norris á vellinum. Á endanum var hann keyrður í burtu í sjúkrabíl.

Leikmenn liðanna voru auðvitað mjög slegnir yfir þessum meiðslum hans en það átti að halda áfram leik.

Leikmennirnir voru ekki alveg tilbúnir í það og ákváðu frekar að standa saman í hring og láta leiktímann renna út.

Þá voru þrettán mínútur eftir af leiknum en NFL ákvað að aflýsa leiknum þegar sex og hálf mínúta var eftir enda öllum ljóst að leikmennirnir voru ekki í tilfinningalegu ástandi til að spila.

Síðustu fréttir af Norris eru að ástand hans er stöðugt samkvæmt tilkynningu frá Detroit Lions og hann getur hreyft og er með tilfinningu í öllum limum.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×