Fótbolti

Messi dæmdur eftir allt saman í bann fyrir skrópið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi vildi ekki taka þátt í Stjörnuleik MLS deildarinnar, taldi sig þurfa á hvíld að halda.
Lionel Messi vildi ekki taka þátt í Stjörnuleik MLS deildarinnar, taldi sig þurfa á hvíld að halda. Getty/ Ira L. Black

Liðsfélögunum Lionel Messi og Jordi Alba verður refsað fyrir það að skrópa í Stjörnuleik bandarísku MLS deildarinnar.

Javier Mascherano, þjálfari Inter Miami, hafði sagt blaðamönnum að leikmennirnir mættu spila næsta leik en MLS-deildin tilkynnti í kvöld að þeir séu báðir að fara í eins leiks bann.

Stuðningsmenn kusu Messi og Alba í Stjörnuleikinn en það kom síðan í ljós á leikdegi að hvorugur yrði með. Bandarískir fjölmiðlar hafa fjallað talsvert um þetta mál og sumir líta svo á að Messi hafi sýnt leiknum litla virðingu.

Báðir vildu frekar hvíla sig eftir mikið álag á síðustu vikum. Inter Miami þurfti að spila marga leiki á stuttum tíma vegna þátttöku félagsins í heimsmeistarakeppni félagsliða.

Messi er með sex tvennur í síðustu sjö leikjum en hann er að spila níutíu mínútur í hverjum leik og þurfti nauðsynlega á hvíld að halda. Yfirmenn MLS deildarinnar tóku eftir allt saman þá afsökun ekki góða og gilda.

Samkvæmt reglum deildarinnar þá á leikmaður að fá einn leik í bann fyrir að neita að mæta í leikinn.

MLS deildin fylgir þeim reglum og leikmennirnir fá báðir meiri hvíld.

Mascherano fagnaði viðburði eins og Stjörnuleiknum en argentínski þjálfarinn telur að deildin þurfi að finna honum betri og hentugri tíma í framtíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×