Innlent

Skógasafn vill Gunnfaxa en beðið svara eig­enda

Kristján Már Unnarsson skrifar
Gunnfaxi hefur staðið í lúpínubreiðu á Sólheimasandi frá því í síðasta mánuði eftir að hafa verið geymdur áratugum saman í flugskýli á Keflavíkurflugvelli og þar áður á Reykjavíkurflugvelli. Flugvélinni var síðast flogið árið 1976 og var hún síðasta DC 3-vélin í almennu farþegaflugi á Íslandi.
Gunnfaxi hefur staðið í lúpínubreiðu á Sólheimasandi frá því í síðasta mánuði eftir að hafa verið geymdur áratugum saman í flugskýli á Keflavíkurflugvelli og þar áður á Reykjavíkurflugvelli. Flugvélinni var síðast flogið árið 1976 og var hún síðasta DC 3-vélin í almennu farþegaflugi á Íslandi. Snorri Snorrason

Stjórn Skógasafns hefur lýst sig tilbúna að taka við Flugfélagsþristinum Gunnfaxa í sýningarhæfu ástandi til varðveislu á Samgöngusafninu á Skógum. Áhugafélagið „Vinir Gunnfaxa“ bíður núna svara frá eigendum flugvélarinnar, landeigendum Sólheimasands, um hvort þeir séu tilbúnir að láta hana af hendi til safnsins.

Sjá mátti í beinni útsendingu Stöðvar 2 þann 12. júní síðastliðinn þegar verið var að flytja þristinn frá Keflavíkurflugvelli austur í sveitir. Eigendur Sólheimasands höfðu þá keypt flugvélina TF-ISB af Þristavinafélaginu í því skyni að koma henni fyrir á sandinum nálægt flaki annars þrists, sem reynst hefur mikið aðdráttarafl ferðamanna.

Þessi ráðstöfun flugvélarinnar olli ólgu meðal þristavina. Í spjallþræði á netinu lýstu margir andstöðu sinni og sögðu að Gunnfaxa biðu sömu örlög og Varnarliðsþristsins, sem nauðlenti á sandinum árið 1973; að verða veðri og vindi að bráð og tærast þar upp.

Benedikt Bragason, talsmaður Landeigendafélags Ytri-Sólheima, brást við með því að bjóðast til að selja þeim flugvélina. Þeim væri frjálst að koma og sækja hana gegn því að þeir greiddu kaupverðið og útlagðan kostnað, samtals um fjórar milljónir króna.

Gunnfaxi var fluttur frá Keflavíkurflugvelli austur á Sólheimasand þann 12. júní síðastliðinn. Vængirnir fylgdu með í kaupunum og sést annar þeirra á vörubílspallinum til hægri.KMU

Um líkt leyti hafði Ólafur Eggertsson, bóndi á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum, samband við Flugfélagsbræðurna Jón Karl og Snorra Snorrasyni. Kvaðst Ólafur ekki geta hugsað sér að flugvélin færi á sandinn. Saman stofnuðu þeir félagið „Vinir Gunnfaxa“ með það að markmiði að bjarga henni inn á safn.

Ljósmynd sem faðir þeirra bræðra, Snorri Snorrason flugstjóri, tók af Gunnfaxa á Skógaflugvelli árið 1960 ýtti undir þá hugmynd að fá Samgöngusafnið á Skógum til að taka við flugvélinni. Jafnframt höfðu menn í huga merkilegt hlutverk þristanna í samgöngusögu Sunnlendinga og Skaftfellinga. Á tímum vegleysa notaði Flugfélag Íslands þá meðal annars í flugi til Hellu, Vestmannaeyja, Skóga, Kirkjubæjarklausturs, Fagurhólsmýrar og Hornafjarðar á árunum 1951 til 1974.

Gunnfaxi á flugvellinum á Skógasandi þegar Flugfélag Íslands sinnti þangað áætlunarflugi. Myndin var tekin þann 24. júlí árið 1960, fyrir 65 árum. Bílaflotinn og fólksfjöldinn við flugvélina gefur hugmynd um umsvifin í kringum flugsamgöngurnar undir Eyjafjöllum á þessum tíma.Snorri Snorrason

Gunnfaxi skipar auk þess óvenjulegan sess í landbúnaðarsögu Íslendinga. Flugvélin var nefnilega nýtt til þess að flytja lifandi sauðfé úr Öræfasveit til annarra héraða í fjárskiptum vegna sauðfjársjúkdóma. Þeir flutningar vöktu landsathygli á sínum tíma.

Sauðkindur Öræfinga í farþegarými Gunnfaxa á flugvellinum á Fagurhólsmýri árið 1956.Snorri Snorrason

Vinir Gunnfaxa sendu stjórn Skógasafns erindi þann 17. júní síðastliðinn til að kanna hvort safnið sæi sér fært að veita flugvélinni viðtöku og varðveislu til framtíðar. Hugmynd þeirra væri að standa að söfnun til að fjármagna kaup á flugvélinni og koma henni í sýningarhæft ástand; það er að fá þá varahluti sem vantar á búk vélarinnar, hreinsa hana að utan og mála hana í frumlitum Flugfélags Íslands, en áformunum var lýst í þessari frétt:

Stjórn Skógasafns hefur núna svarað erindinu með svohljóðandi bókun sem samþykkt var samhljóða:

„Stjórn safnsins tekur jákvætt í erindið og lýsir sig tilbúna til að taka við Gunnfaxa í sýningarhæfu ástandi. Framkvæmdastjóra og formanni stjórnar falið að vinna málið áfram.“

Gunnfaxi á Skógaflugvelli árið 1951. Flugfélag Íslands keypti flugvélina í aprílmánuði það ár.Snorri Snorrason

Að sögn Snorra Snorrasonar, eins forsvarsmanna Vina Gunnfaxa, hefur komið fram í viðræðum við landeigendur Sólheimasands, eiganda TF-ISB, að þeir vilji gjarnan fá sambærilega flugvél í staðinn. Kannað hafi verið hvort gamall Varnarliðsþristur á Flugminjasafni Egils Ólafssonar í Örlygshöfn í Patreksfirði gæti fengist. Eigandi safnsins að Hnjóti hafi hins vegar sett upp svo hátt verð að það hafi verið óaðgengilegt.

Gamall Varnarliðsþristur er á flugminjasafninu á Hnjóti í Örlygshöfn.Egill Aðalsteinsson

Einnig hafi verið þreifað á aðila í Mýrdal um möguleg kaup á vatnadrekum með það í huga að þeir gætu farið á Sólheimasand sem sýningargripir í stað Gunnfaxa. Óljóst sé hvort slík lausn gæti gengið.

Í erindi sem Vinir Gunnfaxa hafa núna sent stjórn landeigendafélagsins, með formlegri ósk um kaup á flugvélinni til varðveislu á Skógasafni, segja þeir ríka ástæðu til að vernda hana eftir langa og farsæla sögu í þjónustu þjóðarinnar.

Gunnfaxi á Fagurhólsmýri árið 1956 að sækja lifandi sauðfé. Öræfajökull í baksýn.Snorri Snorrason

„Á Samgöngusafninu á Skógum mundi hún sóma sér vel og bera sögu samgangna á Suðurlandi verðugt vitni og verða mikil lyftistöng fyrir Skóga.

Að mati sérfræðinga okkar þarf vélin að komast í var sem allra fyrst, áður en haustlægðir gera vart við sig.

Í vörslu safnsins yrði hún okkur öllum til mikils sóma og styrkur fyrir byggðasögu Suðurlands og vekja mikla athygli,“ segir í bréfi Gunnfaxavina til landeigendafélagsins.

Snorri kveðst bjartsýnn á farsæla niðurstöðu. Hann hafi fengið það svar að stjórn landeigendafélagsins muni væntanlega funda um málið fyrir miðjan ágústmánuð.

Gunnfaxi er eini íslenski þristurinn sem flutt hefur meðlim bresku konungsfjölskyldunnar. Ásgeir Ásgeirsson, forseti Íslands, og Filippus prins, eiginmaður Englandsdrottningar, sjást hér ganga frá borði á Akureyrarflugvelli þann 1. júlí árið 1964. Þeir flugu frá Stóra-Kroppi í Borgarfirði eftir laxveiði í Norðurá og voru á leið í skoðunarferð um Mývatnssveit.Minjasafnið á Akureyri

Tengdar fréttir

Vinir Gunnfaxa vonast til að bjarga Flugfélagsþristinum

Áhugamenn um Flugfélagsþristinn Gunnfaxa hafa ákveðið að hefja fjársöfnun til að bjarga þessari sögufrægu flugvél frá því að eyðileggjast á Sólheimasandi. Þeir hyggjast koma henni í sýningarhæft ástand í von um að Samgöngusafnið á Skógum taki við henni.

Ólga meðal þristavina vegna örlaga Gunnfaxa

Sú ákvörðun stjórnar Þristavinafélagsins að selja Flugfélagsþristinn Gunnfaxa til landeigenda á Sólheimasandi hefur valdið ólgu meðal þristavina. Bóndinn á Ytri-Sólheimum, kaupandi flugvélarinnar, segir þeim frjálst að fá hana til baka, svo fremi að þeir endurgreiði kaupverðið og kostnað við flutninginn.

Landeigendur Sólheimasands keyptu gamlan Flugfélagsþrist

Landeigendur Sólheimasands, sem geymir frægasta flugvélarflak Íslands, hafa keypt gamlan Flugfélagsþrist af Þristavinafélaginu. Hugmyndin er að flugvélarskrokkurinn leysi af hólmi gamla flakið á sandinum, sem er að tærast upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×