Erlent

Ís­lendingur í Bandaríkjunum: „Þetta er mjög ó­þægi­leg staða“

Samúel Karl Ólason skrifar
Um 6.700 erlendir nemendur sækja Harvard.
Um 6.700 erlendir nemendur sækja Harvard. Getty/John Tlumacki

Íslendingur sem nam við Harvard háskóla og vinnur nú í Bandaríkjunum á hefðbundnum landvistarleyfi fyrir námsmenn, gæti þurft að yfirgefa landið með stuttum fyrirvara. Er það eftir að ríkisstjórn Bandaríkjanna felldi úr gildi landvistarleyfi fyrir nemendur skólans og meinaði skólanum að taka móti nýjum erlendum nemendum.

Heimavarnaráðuneyti Bandaríkjanna tilkynnti í kvöld að búið væri að fella úr gildi aðgang Harvard að landvistarleyfi fyrir nemendur. Það felur í sér að erlendir nemendur þurfa að skipta um skóla eða missa landvistarleyfið.

Ekki liggur fyrir hvenær nemendurnir þurfa að vera búnir að skipta um skóla.

Sjá einnig: Banna erlendum nemendum að sækja Harvard

Það að skipta um skóla er ekki í boði fyrir einn Íslending sem Vísir ræddi við. Sá vildi ekki láta nafns síns getið, vegna viðkvæmrar stöðu, en hann er útskrifaður og í vinnu í Bandaríkjunum á grunni landvistarleyfisins gegnum Harvard. Hann hefur því ekki kost á því að finna sér nýjan skóla og gæti verið vísað úr landi.

„Þetta á ekki bara við um námsmenn heldur einnig fólk sem er að vinna í Bandaríkjunum sem hluta af náminu,“ segir hann. Með landvistarleyfinu sem um ræðir geta námsmenn unnið í Bandaríkjunum í allt að þrjú ár eftir útskrift.

„Þetta er mjög óþægileg staða. Ég ætlaði persónulega ekki að vera hérna endalaust en það kom til greina að vera hérna áfram.“

Hann segist þekkja Íslendinga sem vilja búa sér líf í Bandaríkjunum og eiga kannski bandaríska maka. Þeirra líf sé nú í mun meira uppnámi en hans.

Þá eru íslenskir nemendur í skólanum og vika í útskrift.

„Enginn þeirra veit neitt.“

Erlendir nemendur segja í samtali við blaðamenn Harvard Crimson, að yfirlýsing kvöldsins hafi valdið örvæntingu meðal þeirra.

Sjálfur er maðurinn alltaf með vegabréfið á sér í Bandaríkjunum og gæti hann átt von á því að bankað væri upp á hjá honum og hann sendur heim með litlum fyrirvara.

„Ég er alveg tilbúinn andlega fyrir það að geta verið sendur heim.“

Höfða líklega annað mál

Þegar þetta er skrifað hafa forsvarsmenn Harvard ekki sent frá sér yfirlýsingu eða sagst hvað þeir ætli að gera. Hins vegar hafa borist fregnir af því að til standi að höfða annað mál gegn ríkisstjórninni.

Talsmaður skólans hefur sagt aðgerðirnar ólöglegar. Þær ógni skólanum, samfélaginu þar og öllum Bandaríkjunum.

Ríkisstjórn Donalds Trump hefur sett mikinn þrýsting á marga háskóla Bandaríkjanna á þeim yfirlýsta grunni að víða hafi verið skapað and-bandarískt umhverfi. Kristi Noem, heimavarnaráðherra Bandaríkjanna, sagði í yfirlýsingu sem send var út í kvöld að allir háskólar og menntastofnanir landsins geti litið á aðgerðirnar gegn Harvard sem viðvörun.

Hvíta húsið hefur krafist þess að breytingar verði gerðar á ráðningaferli skólans, stjórnarháttum inntökuskilyrðum og einnig námsefni, í takt við áherslur ríkisstjórnarinnar.

Til að þvinga stjórnendur skólans til að verða við kröfum þeirra hefur ríkisstjórnin fryst opinberar fjárveitingar til skólans, hafið margskonar rannsóknir á starfsemi skólans, hótað að afnema skattaívilnanir sem skólinn hefur notið og gert ýmislegt annað.

Heimavarnaráðuneytið krafði forsvarsmenn skólans í apríl um umfangsmikil gögn um erlenda nemendur skólans, sem eru um 6.700 talsins. Þar á meðal voru upplýsingar um hvað þeir væru að gera á skólalóðinni og hvort þeir hefðu tekið þátt í mótmælum.

Í yfirlýsingu ráðuneytisins voru forsvarsmenn skólans sakaðir um að hafa skapað óöruggt umhverfi fyrir nemendur með því að leyfa erlendum nemendum sem fylgi hryðjuverkahópum að máli meðal annars að áreita og ráðast á aðra nemendur, sem margir hafi verið gyðingar.

Skólinn hefur einnig verið sakaður um rasíska stefnu vegna svokallaðrar DEI-stefnu en það stendur fyrir fjölbreytni, jafnrétti og inngildingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×