Innlent

Allt til­tækt lið sent vegna elds á hjúkrunar­heimili

Árni Sæberg skrifar
Hjúkrunarheimilið var rýmt vegna eldsins.
Hjúkrunarheimilið var rýmt vegna eldsins. María Kristjánsdóttir

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sendi allt tiltækt lið að Hrafnistu við Sléttuveg í Reykjavík á ellefta tímanum eftir að eldur kviknaði í rafmagnstöflu í tæknirými. Slökkvistarf gekk vel sem og rýming hússins.

Þetta segir vakthafandi varðstjóri í samtali við Vísi en Ríkisútvarpið greindi fyrst frá. Hann segir að allt tiltækt lið hafi verið sent á vettvang vegna eðlis starfseminnar í húsinu. 

Mikið viðbragð var á vettvangi.Vísir/Lýður

Vel hafi gengið að rýma húsið og aðeins ein tilkynning hafi borist um að einstaklingur hafi andað að sér reyk. Verið sé að hlúa að honum og ekki sé ljóst hvort flytja þurfi hann á sjúkrahús. Íbúar hjúkrunarheimilisins hafi fljótt fengið inni í nærliggjandi húsum.

Hér að neðan má sjá myndskeið sem tekin voru á vettvangi og sýna slökkvistarf og rýmingu hjúkrunarheimilisins.

Að neðan má sjá tilkynningu frá Hrafnistu vegna málsins:

Eldur kom upp í rafmagnstöflu á 1. hæð hjúkrunarheimilisins Hrafnistu við Sléttuveg í Reykjavík upp úr kl. 10:30 í morgun. Töluverður reykur myndaðist sem varð þess valdandi að flytja þurfti 22 íbúa af 1. hæð og 11 íbúa af jarðhæð hússins þar sem reykur og vatn hafði borist þangað niður. Slökkvilið, lögregla og starfsfólk Hrafnistu brást skjótt við, mjög vel gekk að ráða niðurlögum eldsins og rýmingin gekk hratt fyrir sig. Engan sakaði, en verið er að vinna að því að finna tímabundin pláss fyrir 22 íbúa á meðan verið er að reykræsta húsnæðið. Óvíst er hvenær því lýkur og til að byrja með verður dagdvölin við Sléttuveg lokuð af þeim sökum.

Fulltrúar Hrafnistu hafa þegar haft samband við aðstandendur íbúa og munu halda áfram að upplýsa þá um gang mála.

Sjómannadagsráð og fulltrúar Hrafnistu vilja nota tækifærið og þakka slökkviliði, lögreglu og starfsfólki Hrafnistu fyrir snör og markviss vinnubrögð við þessar krefjandi aðstæður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×