Tónlist

Lofar svaka­legri veislu

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Friðrik Dór heldur tvenna tónleika í Háskólabíói á sunnudagskvöld.
Friðrik Dór heldur tvenna tónleika í Háskólabíói á sunnudagskvöld. Hulda Margrét

„Ég lofa aldrei upp í ermina á mér en í þetta skipti ætla ég að gera það; þetta verður svakaleg veisla,“ segir Friðrik Dór tónlistarmaður sem heldur tvenna tónleika í Háskólabíói í kvöld.

Friðrik Dór þarf vart að kynna fyrir landsmönnum enda verið einn ástsælasti söngvari landsins síðustu 15 ár og hefur hann sungið sig inn í hjörtu þjóðarinnar með slögurum sem telja í tugum.

Hann ætlar að tjalda öllu til í kvöld og bjóða aðdáendum í veislu, eins og hann orðar það sjálfur.

„Ég hef haldið nokkra tónleika í gegnum tíðina og mér finnst alveg „extra“ gaman að halda tónleika á sumrin. Það er svo mikil gleði í aðdáendum, allir í sumar-fíling, sólin á lofti allan sólarhringinn og allir til í að eiga gott kvöld,“ segir hann.

„Ég verð með hljómsveit með mér og lofa miklu stuði. Ég er búinn að vera í svo miklu sumarstuði síðustu vikur, ég veit ekki afhverju - kannski er ég bara svona mikill sumarstrákur. Við verðum í geggjuðum gír. Það verður ekkert candyfloss né stórir snuddusleikjóar eins og á 17. júní, heldur fallegt kvöld í bland við gleði og stuð,“ segir Friðrik Dór.

Í vikunni voru sagðar fréttir af því að heimsmet yrði slegið þegar lagið Til í allt III kæmi út, en lagið kom út í vikunni. Samkvæmt Friðriki Dór hefur aldrei verið gefið út lag í þremur hlutum í heiminum áður.

En ætlar hann að taka öll þrjú lögin í þríleiknum fyrir aðdáendur á sunnudagskvöld? 

„Það er aldrei að vita, ég hef alltaf verið þekktur fyrir að vera til í allt - við sjáum hvað setur,“ segir hann hlægjandi að lokum.

Uppselt er á fyrri tónleikana en örfáir miðar eru eftir á þá seinni. Nálgast má miða á þá hér.


Fleiri fréttir

Sjá meira


×