Sport

Skotinn með raf­byssu þegar hann hljóp inn á völlinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ljósmyndari leiksins var á tánum þegar atvikið átti sér stað.
Ljósmyndari leiksins var á tánum þegar atvikið átti sér stað. Andy Lyons/Getty Images

Cincinnati Reds tók á móti Cleveland Guardians í MLB-deildinni í hafnabolta á miðvikudag og fór það svo að gestirnir unnu 5-3 sigur.

Það er þó ekki ástæðan fyrir því að leikurinn ratar í fréttirnar hér á Vísi en ástæðan er sú að áhorfandi sem hljóp inn á völlinn var skotinn með rafbyssu af lögreglumanni sem sinnti öryggisgæslu á leiknum.

Leikurinn fór eins og hann fór en á einum tímapunkti leiksins ákvað hinn 19 ára gamli William Hendon, stuðningsmaður Cincinnati, að hann vildi sínar 15 sekúndur af frægð. 

Hann hljóp því inn á Great American Ball Park-völlinn, spjallaði stuttlega við Tyler Freeman – leikmann Guardians, áður en komið var að stuttri fimleika sýningu. 

Eftir stutta sýningu á miðjum vellinum var komið að því að reyna stinga lögregluna af. Það gekk vægast sagt ekki upp þar sem lögreglumaðurinn tók upp rafbyssu og skaut Hendon í bakið. Féll hann til jarðar í þann mund er annar lögreglumaður kom askvaðandi.

„Stuðningsmaður hljóp inn á völlinn og reyndi að stinga lögregluna af þegar þeir reyndu að hindra frekari truflun á leiknum. Með því ögraði hann bæði öryggi leikmanna og starfsfólki vallarins. Téður einstaklingur var skotinn með rafbyssu til að hægt væri að hafa hendur í hári hans,“ sagði lögreglufulltrúinn Jonathan Cunningham í viðtali við NBC News.

Lögmaður og fjölskylda Hendons svaraði ekki fyrirspurnum NBC um málið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×