Sport

Segir að þeir sem taki þátt á Steraleikunum séu heimskingjar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sebastian Coe er ekki mikill aðdáandi Steraleikanna.
Sebastian Coe er ekki mikill aðdáandi Steraleikanna. getty/Sam Barnes

Forseti forseti alþjóða frjálsíþróttasambandsins, Sebastian Coe, segir að þeir sem taka þátt í Steraleikunum svokölluðu séu heimskingjar og eigi langt bann yfir höfði sér.

Steraleikarnir (e. The Enhanced Games) eru viðburður sem ástralski auðjöfurinn Aron D'Souza stendur fyrir. Þar eru engar reglur um lyfjanotkun og ekkert lyfjaeftirlit. Ekki er þó enn ljóst hvar og hvenær fyrstu Steraleikarnir fara fram.

Samkvæmt D'Souza hafa íþróttamenn sem taka þátt á Ólympíuleikunum í sumar lýst yfir áhuga sínum á að taka þátt á Steraleikunum. Í síðasta mánuði reið James Magnussen, fyrrverandi heimsmeistari í sundi, svo á vaðið og tilkynnti að hann myndi keppa á Steraleikunum og freista þess að bæta heimsmetið í skriðsundi fyrir eina milljón Bandaríkjadala.

Wada, alþjóða lyfjaeftirlitið, hefur lýst yfir frati á Steraleikana og það sama gerði Coe á blaðamannafundi fyrir HM í frjálsum íþróttum sem hófst í dag.

„Ég get ekki verið spenntur fyrir þessu. Ég er bara með ein skilaboð og það er að ef einhver er nógu heimskur til að taka þátt á þessum leikum eru þeir komnir á endastöð hjá okkur og fara í langt bann,“ sagði Coe.

D'Souza svaraði ummælum Coes og sagði að það sé ekkert heimskulegt við keppendur sem vilja taka þátt á Steraleikunum. Þar fáir dópaðir og ódópaðir íþróttamenn að keppa hlið við hlið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×