Innlent

For­seta­hjónin ræddu við Palestínu­menn á Bessa­stöðum

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Stríðið fyrir botni Miðjarðarhafs og áhrif þess á Palestínumenn nær og fjær var meðal umræðuefna ásamt stöðu innflytjenda á Íslandi.
Stríðið fyrir botni Miðjarðarhafs og áhrif þess á Palestínumenn nær og fjær var meðal umræðuefna ásamt stöðu innflytjenda á Íslandi. Forsetaembættið

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og eiginkona hans Eliza Reid ræddu á föstudaginn við Palestínumenn búsetta á Íslandi á Bessastöðum yfir kaffi og kleinum. Þau ræddu um stríðið sem geysar á Gasa og áhrif þess á Palestínumenn hérlendis og annars staðar.

Eliza greinir frá þessu í færslu á síðu sína á Instagram þar sem hún segir að forsetahjónin hafi ítrekað stuðning sinn við ákall ríkisstjórnarinnar fyrir fyrirvaralausu vopnahlé.

Í tilkynningu á vefsíðu forsetaembættisins kemur fram að til fundarins hafi meðal annars komið Asil Almassri. 17 ára stúlka sem hlaut íslenskan ríkisborgararétt í árslok 2023 eftir að hún missti fjölskyldu sína og annan fótlegginn í árás Ísraelshers á Gasa.

Qussay Odeh, Suliman Almassri, Emad Bardawel, Asil Almassri, Fida Abu Libdeh og Ikram Zubaydi ásamt forsetahjónum.Forsetaembættið

Emad Albardawil var einnig á fundinum og sagði forsetahjónum sögu sína. Hann endurheimti á dögunum eiginkonu sína og börn frá Gasa fyrir tilstilli íslenskra sjálfboðaliða við landamæri Palestínu að Egyptalandi. Ikram Zubaydi, Qussay Odeh og Suliman Almassri voru líka á fundinum og fyrir hópnum fór Fida Abu Libdeh, framkvæmdastjóri íslenska nýsköpunarfyrirtækisins GeoSilica.

„Forsetahjón vottuðu palestínska samfélaginu samúð vegna hins mikla mannfalls sem orðið hefur á Gasa og tóku undir ákall íslenskra stjórnvalda og annarra um tafarlaust vopnahlé þar. Einnig var rætt um stöðu innflytjenda í íslensku samfélagi og leiðir til að gera þeim kleift að njóta sín til fulls, sjálfum sér og öðrum til heilla.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×