Sport

Mahomes biður fyrir Kansas City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Patrick Mahomes og félagar hans í liði Kansas City Chiefs sluppu ómeiddir frá skotárásinni.
Patrick Mahomes og félagar hans í liði Kansas City Chiefs sluppu ómeiddir frá skotárásinni. Getty/Marc Sanchez

Sigurhátíð Kansas City Chiefs liðsins breyttist í martröð í gær þegar skotið var á fjölda fólks í meistaraskrúðgöngu liðsins.

Chiefs liðið var að fagna sigri í Super Bowl leiknum en það varð fyrsta félagið í NFL í nítján ár til að vinna tvö ár í röð. Það var gríðarlegur fjöldi samankominn í miðborg Kansas City til að fagna með leikmönnum og þjálfurum en skotin hljómuðu undir lok hátíðarinnar.

Leikmenn og starfsmenn Chiefs liðsins sluppu óhultir frá skotárásinni en allir voru ekki svo heppnir.

Einn lést og 21 einn varð fyrir skoti. Lögreglan handtók þrjá aðila. Lögreglustjórinn Stacey Graves staðfesti þessar tölur á blaðamannafundi.

Átta þeirra sem urðu fyrir skoti voru í lífshættu en sex þeirra fengu minniháttar sár.

„Ég er reið yfir því sem gerðist í dag. Fólkið sem kom hingað til að fagna liðinu ættu að búast við öruggu umhverfi,“ sagði Stacey Graves, lögreglustjóri Kansas City.

Útvarpsstöðin KKFI greindi frá því að einn plötusnúður hennar, Lisa Lopez-Galvan, hafi látist í skotárásinni. Hún var tveggja barna móðir.

Mercy barnaspítalinn staðfesti það að hann hafi fengið ellefu börn inn til sín sem höfðu særst í skotárásinni. Þau voru á aldrinum sex til fimmtán ára en eiga öll að ná sér af sárum sínum.

Leikmennirnir sluppu óhultir en voru mjög slegnir yfir fréttunum.

„Ég bið fyrir Kansas City,“ skrifaði leikstjórnandinn Patrick Mahomes á samfélagsmiðilinn X.

„Við skulum biðja fyrir fórnarlömbum þessa andstyggilega verknaðs. Biðjum fyrir því að læknar og viðbragðsaðilar hafi traustar hendur og að það verði í lagi með alla,“ skrifaði liðsfélagi hans Drue Tranquill.

Travis Kelce sagðist vera harmi lostinn yfir atburðunum í gær. „Hjarta mitt er hjá öllum sem komu til að fagna með okkur en urðu fyrir áhrifum af þessari árás. KC mig þykir svo vænt um þig,“ skrifaði Kelce.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×