Enski boltinn

Segir að Rasmus Hojlund verði súperstjarna hjá Man. Utd

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rasmus Hojlund er kominn í gang hjá Manchester United og það boðar gott fyrir félagið sem þarf á mörkum hans að halda.
Rasmus Hojlund er kominn í gang hjá Manchester United og það boðar gott fyrir félagið sem þarf á mörkum hans að halda. Getty/Robbie Jay Barratt

Stuðningsmenn Manchester United hafa þurft að sýna mikla þolinmæði þegar kemur að danska framherjanum Rasmus Hojlund en nú virðist vera farið að birta vel til á þeim bænum.

Einn af aðdáendum þessa stóra og öfluga framherja er Sky Sports sérfræðingurinn Paul Merson.

Hojlund skoraði fyrra mark Manchester United í 2-1 sigri á Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

„Ég er hrifinn af honum. Þetta er ungur strákur, hann er bara 21 árs gamall og að spila fyrir eitt af stærstu félögum heims. Ef það væri eitthvað sem flestir vildu tappa á flöskur í fótboltanum þá væri það sjálfstraust. Hann er góður leikmaður og ég held að hann verði súperstjarna,“ sagði Paul Merson á Sky Sports.

„Hann er kominn með sjálfstraustið núna og fótboltinn snýst svo mikið um sjálfstraust. Hann heldur boltanum vel og er að skila honum vel úr á vængina,“ sagði Merson.

„Þegar þú kemst meira og meira inn í leikinn þá eykst sjálfstraustið. Færin halda áfram að koma og þú ferð að nýta þau,“ sagði Merson.

„Í þessum tíu leikjum sem hann skoraði ekki í þá var hann að reyna að skora úr öllum mögulegum og ómögulegum stöðum. Hann hélt alltaf áfram og nú er þetta að detta fyrir hann,“ sagði Merson.

Rasmus Hojlund hefur skorað í fimm leikjum í röð í ensku úrvalsdeildinni og eitt bikarmark að auki á nýju ári. Hann er þar með kominn með ellefu mörk í 29 leikjum i öllum keppnum en fimm fyrstu mörk hans fyrir United komu í Meistaradeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×