Menning

Fólk að­fram­komið af sið­ferðis­þreki haldi sig heima

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Tyrfingur hefur verið kallaður undrabarn í íslensku leikhúsi og hlot mikið lof fyrir verk sín. Hann hefur skrifað alls sjö leikhúsverk en sýningin Sjö ævintýri um skömm var tilnefnd til tólf Grímuverðlauna og hreppti sex þeirra.
Tyrfingur hefur verið kallaður undrabarn í íslensku leikhúsi og hlot mikið lof fyrir verk sín. Hann hefur skrifað alls sjö leikhúsverk en sýningin Sjö ævintýri um skömm var tilnefnd til tólf Grímuverðlauna og hreppti sex þeirra.

Leikskáldið Tyrfingur Tyrfingsson segist skilja gagnrýni sem leikritið Lúna hefur fengið en er ósammála því að það eigi að taka verkið af dagskrá þó fólk sé ósátt. Syndaselirnir verði líka að eiga sitt leikhús í friði.

Leikritið Lúna var frumsýnt í Borgarleikhúsinu í gær en verkið, sem hét áður Kvöldstund með Heiðari snyrti, hefur verið mikið til umfjöllunar undanfarna mánuði. Drífa Snædal, talskona Stígamóta, vakti athygli á því í október að Heiðar hefði verið dæmdur fyrir að brjóta á ungum mönnum og með verkinu væri ekki verið að taka tillit til brotaþola. 

Borgarleikhúsið og Tyrfingur svöruðu gagnrýninni á þann veg að það væri ekki ævisögulegt og að Heiðar hefði verið kveikjan að persónu verksins. Þrátt fyrir það var titlinum á endanum breytt í Lúnu en Tyrfingur sagði að maður hafði persónulega haft samband við sig og óskar eftir því. 

Drífa gagnrýndi þá að aðeins titlinum hefði verið breytt en ekki innihaldi þess. Hún sagði Borgarleikhúsið neita að viðurkenna alvarleika kynferðisbrota og það viðhéldi þjáningum þolenda með því að stilla kynferðisbrotamanni í kastljósið.

Tyrfingur var til viðtals í Bakaríinu á Bylgjunni í morgun þar sem hann ræddi um góðar viðtökur verksins, breytinguna á titli verksins og gagnrýni fólks á umfjöllunarefnið.

Erfitt að vorkenna sér eftir góða viku

„Við vorum búin að vera í brekku, það gaf á bátinn svolítið hressilega í marga mánuði. Svo í vikunni fóru að koma gestir og þá bara breyttist allt. Fólk var ofboðslega snortið, svo ánægt með leikarana og sýninguna,“ sagði Tyrfingur aðspurður út í góða dóma Steinunnar Ólínu og Runólfs Ágústssonar á sýningunni. 

„Svo áttum við frábæra frumsýningu í gær þannig það er mjög erfitt að vorkenna sér en ég reyni mitt besta. Ég finn eitthvað,“ bætti Tyrfingur við.

Þú talaðir um að það hafi verið brekka, þurftirðu eitthvað að breyta stykkinu?

„Nei, bara titlinum. Þetta verk fjallar ekki um það sem það er gagnrýnt fyrir að fjalla um,“ segir Tyrfingur og bætir við að leikhúsgestir sem sáu sýninguna hafi furðað sig á umtalinu undanfarna mánuði.

„Ef maður fær svona ásakanir, eða kvartanir, þá fer maður meira inn á við. Þannig hún er kannski enn meira inn á við en hún hefði annars orðið, sem er bara gott. Og hún er kannski aðeins þyngri en maður hefði annars haldið,“ sagði Tyrfingur.

„Maður á að leyfa öllu að hafa áhrif á sig. Eins og þegar leikarar eiga skelfilegan dag, einhverjir gríslingar að gera allt vitlaust, þá þurfa þeir að mæta með það á sviðið. Líka inn á æfingarnar, leyfa öllu að koma inn í æfingarýmið og nota það,“ sagði hann.

Maður þurfi að fara í stórustrákabuxur og hætta að væla

Tyrfingur segist skilja gagnrýnina en það þýðir ekki að maður eigi að slaufa sjálfum sér heldur 

Er ekki kúnst fyrir leikskáld að taka svona stormi og þróa það í eitthvað meistaraverk í stað þess að fara í vörn?

„Verkið var alveg tilbúið. En ef maður skrifar leikrit þar sem einhver persóna kemur sem mörgum finnst dásamleg og öðrum ekki þá er mjög eðlilegt að það komi gagnrýni á það. Það er ekkert fáránlegt,“ segir Tryfingur.

„Ég skil alveg gagnrýnina, hún er að mörgu leyti réttmæt þó ég sé ósammála því að við eigum að fara að slaufa sjálfum okkur. Mér finnst það óþarfi en gagnrýnin sjálf og umræðan er ekki skrítin. Maður getur ekki skrifað svona verk og verið svo æðislega sár yfir því að einhver sé með aðra skoðun á því en maður sjálfur.“

„Maður þarf svolítið að fara í big-boy-pants og vera ekki að væla og þá er þetta bara allt í góðu,“ segir hann.

„Ofboðslega viðkvæmt“ fólk eigi ekki að sjá sýninguna

Tyrfingur segir að ef fólk er algjörlega aðframkomið af siðferðisþreki þá eigið það að sleppa því að sjá sýninguna. Það sé nóg annað í boði en syndaselirnir þurfi að eiga sitt „show“.

Heiðar er stór karakter þannig þú hefur haft úr nægu að moða.

„Þetta er svo rosamikil týpa og það þarf svo mikla týpu til að fylla upp í svið. Leikrit um mig yrði ógeðslega leiðinlegt, þetta yrði ég að reyna að vera í 16-8 [kúr], svo að borða slátur og reyna að grenja mig inn í eitthvað boð með ykkur,“ sagði hann við mikla kátínu Svavars og Ásu.

Er ekki svolítið sniðugt að sjá þetta og gagnrýna svo?

„Ef fólk er ofboðslega viðkvæmt og jafnvel aðframkomið af siðferðisþreki ekki sjá þessa sýningu! Sjáið eitthvað annað, það er alls konar annað í boði. Hugsið um eitthvað annað. 

„Þetta er líka svolítið það, eitthvað svona Mér finnst þetta erfitt þannig við ætlum að taka þetta af dagskrá. Það er kannski óþarfi. Leyfið okkur syndaselunum að vera með okkar show,“ segir hann.


Tengdar fréttir

„Þar sem ótta­slegin dóm­harkan ríkir“

Runólfur Ágústsson athafnaskáld skrifar sérstaka færslu á Facebook þar sem hann lýsir yfir fullum stuðningi við Tyrfing Tyrfingsson leikskáld og uppfærslu á verki hans Lúnu.

Með hreina samvisku gagnvart Kvöldstund með Heiðari snyrti

Talskona Stígamóta segir út í hött af Borgarleikhússtjóra að halda því fram að leikverkið Kvöldstund með Heiðari snyrti fjalli ekki um „manneskjuna Heiðar“. Höfundur verksins á fund með Stígamótum í næstu viku til að ræða neikvæð áhrif þess á brotaþola. Hann segist með hreina samvisku varðandi verkið en þykir miður að særa brotaþola.


Fleiri fréttir

Sjá meira


×