Sport

Luke Littler: Á eftir að finna gjöf fyrir mömmu sína og pabba

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luke Littler er með fjölskyldu sína í salnum í Ally Pally.
Luke Littler er með fjölskyldu sína í salnum í Ally Pally. Getty/Warren Little

Luke Littler hefur á örskömmum tíma skotist upp á stjörnuhimininn og orðið einn frægasti íþróttamaðurinn í Bretlandi eftir stórkostlega frammistöðu sína á heimsmeistaramótinu í pílukasti.

Þessi sextán ára strákur spilar um heimsmeistaratitilinn í kvöld eftir hvern sannfærandi sigurinn á fætur öðrum á leið sinni í úrslitaleikinn.

Eftir sigurinn í undanúrslitaleiknum í gær þá var hann spurður út í það hvort hann ætlaði að eyða eitthvað af verðlaunafénu sínu í gjöf fyrir mömmu sína og pabba.

Littler er þegar búinn að tryggja sér tvö hundruð þúsund pund í verðlaunafé sem jafngildir tæpum 35 milljónum í íslenskum krónum.

„Ég er ekki búinn að finna neina gjöf handa þeim ennþá. Ég á enn eftir að spila einn leik á morgun. Þau vita auðvitað hvað ég er þakklátur fyrir það sem þau hafa gert fyrir mig. Það voru þau sem komu mér á þetta svið,“ sagði Luke Littler á blaðamannafundi eftir sigurinn í gær.

„Ef ég kemst yfir endalínuna þá mun ég örugglega gefa þeim eitthvað,“ sagði Littler.

Hann talaði líka um mikla fjölgun fylgjenda á samfélagsmiðlum sem og þá staðreynd að hann hefur fengið fullt af skilaboðum frá frægum fótboltamönnum. Littler er mikill stuðningsmaður Manchester United.

„Ég fékk skilaboð frá Luke Shaw hjá Manchester United og frá Rio Ferdinand. Ég fékk líka skilaboð frá Gary Neville og Johnny Evans fyrir leikinn á móti Barney. Það er klikkað að fá skilaboð frá fólki sem ég hef litið upp til og þá sérstaklega að fá kveðju frá uppáhaldsfélaginu mínu Manchester United,“ sagði Littler.


Tengdar fréttir

Ungstirnið Littler flaug í úrslit

Hinn 16 ára gamli Luke Littler er kominn í úrslit heimsmeistaramótsins í pílukasti í sinni fyrstu tilraun eftir öruggan 6-2 sigur gegn fyrrum heimsmeistaranum Rob Cross.

„Nú er mig að dreyma“

Hinn sextán ára gamli Luke Littler varð í gær sá yngsti í sögunni til að komast í undanúrslitin á heimsmeistaramótinu í pílukasti þegar hann vann sannfærandi 5-1 sigur á Brendan Dolan í átta manna úrslitunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×