Fótbolti

Natasha kom inn af bekknum og tryggði Brann sigur

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Natasha Anasi reyndist hetja Brann í kvöld.
Natasha Anasi reyndist hetja Brann í kvöld. Brad Smith/ISI Photos/Getty Images

Landsliðskonan Natasha Anasi reyndist hetja Brann er liðið heimsótti St. Polten í fyrstu umferð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu kvenna í knattspyrnu í kvöld. Hún kom inn af bekknum og skoraði sigurmark gestanna í 1-2 sigri.

Natasha og stöllur hennar heimsóttu St. Polten sem sló Valskonur úr leik í forkeppni Meistaradeildarinnar og það voru gestirnir í Brann sem tóku forystuna með marki frá Rachel Engesvik á 57. mínútu.

Heimakonur jöfnuðu þó metin á 68. mínútu, en aðeins mínútu síðar kom Natasha Anasi inn af varamannabekknum og átti hún heldur betur eftir að breyta gangi leiksins.

Natasha skoraði sigurmark Brann þegar um tíu mínútur voru til leiksloka. Natasha reis þá hæst í teignum og stangaði hornspyrnu Marit Bratberg Lund í netið og tryggði gestunum um leið 1-2 sigur.

Brann er því á toppi B-riðils Meistaradeildar Evrópu með þrjú stig eftir einn leik, en Lyon og Slavia Prag mætast síðar í kvöld.

Á sama tíma máttu Guðrún Arnardóttir og stöllur hennar í Rosengård þola 1-2 tap á heimavelli gegn Eintracht Frankfurt. Guðrún lék allan leikinn í hjarta varnarinnar hjá heimakonum, en liðin leika í A-riðli með Barcelona og Benfica.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×