Innlent

Vonast til þess að geta hleypt Grind­víkingum heim í stutta stund

Lovísa Arnardóttir skrifar
Hjördís Guðmundsdóttir ítrekar að enn sé veruleg hætta á svæðinu. Það fari engin inn ef að vísindamenn meti svo að það sé enn of hættulegt.
Hjördís Guðmundsdóttir ítrekar að enn sé veruleg hætta á svæðinu. Það fari engin inn ef að vísindamenn meti svo að það sé enn of hættulegt. Vísir/Vilhelm

Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi almannavarna, segir að á fundi almannavarna og sérfræðinga Veðurstofunnar klukkan 9.30 verði farið yfir stöðuna, hættumatið og það endurmetið hvort að íbúar fái að fara inn á hættusvæðið.

„Okkar helsta verkefni er að sjá eftir fundinn hvort hættumatið sé breytt og hvort að íbúar fái að fara heim til sín og stoppa stutt til að sækja verðmæti, lyf og dýrin og búfénað.“

Hjördís segir að margir hafi verið farnir áður en rýmingin var sett af stað og hafi því ekki náð að taka dýr, tryggja búfénað eða gera ráðstafanir til að flytja þau. Þess vegna sé nú beðið eftir niðurstöðum fundarins og hættumati.

Metið verður í dag hvort að íbúar Grindavíkur fái að fara inn á hættusvæði í verðmætabjörgun. Vísir/Einar

„Þetta yrði stærsta verkefni dagsins. Fólk myndi þá komast heim í 20 til 30 mínútur í fylgd viðbragðsaðila. En þetta fer allt eftir því hvernig mat vísindamanna er á hættustigi á svæðinu. Það er okkar helsta ósk að komast í þetta verkefni í dag en við biðjum íbúa að hinkra eftir upplýsingum af stöðufundi sem hefst klukkan 9.30,“ segir Hjördís.

Hún segir erfitt að áætla um lengd fundar. Það þurfi að fara vel yfir gögn vísindamanna.

„Hættan er enn til staðar og það er alltaf forgangsatriði við skipulagningu slíkrar aðgerðar. Eins erfitt og það er fyrir fólk að bíða þá þarf að gera þetta rétt og skipulega, og alltaf með öryggi í fyrirrúmi,“ segir Hjördís og ítrekar að þótt svo að niðurstaða liggi fyrir á fundinum þá myndi þetta ekki hefjast í beinu framhaldi. Skipulagning aðgerðarinnar sé þó í fullum gangi.

Hægt er að fylgjast með nýjustu vendingum í vakt Vísis. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×