Sport

Lögreglan rannsakar andlát Adams Johnson

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Adam Johnson lést á laugardag.
Adam Johnson lést á laugardag. Nottingham Panthers

Íshokkíkappinn Adam Johnson lést á skelfilegan hátt á laugardag eftir að hann skarst á hálsi í leik með liði sínu Nottingham Panthers á Englandi. Lögreglan í Suður-Jórvíkurskíri á Englandi er með málið til rannskóknar.

Hinn 29 ára gamli Johnson skarst illa á hálsi í leik Panthers og Sheffield Steelers í Challenge-bikarnum á laugardaginn var, 28. október. Hann var úrskurðaður látinn á spítala skömmu síðar. Lögreglan hefur gefið frá sér tilkynningu þar sem kemur fram að málið sé enn í rannsókn.

Lögreglan hafi mætt á staðinn með sjúkraliðum eftir að maður á þrítugsaldri skarst illa á hálsi. Hann var því miður úrskurðaður látinn skömmu síðar. Lögreglumenn voru áfram á staðnum og héldu áfram rannsókn sinni í gær, sunnudaginn 29. október. Lögreglan er enn að rannsaka kringumstæður og hvað nákvæmlega gerðist.

Eitt félag í deildinni hefur þegar skyldað leikmenn og þjálfara til að klæðast „háls-vörn“ í leikjum og á æfingum. Nick Rothwell, fyrrverandi leikmaður og lýsandi á Sky Sports, telur næsta öruggt að önnur lið deildarinnar fylgi því fordæmi.

„Ég held þó að það þurfi hreinlega ekki að skikka menn til að klæðast slíkri vörn. Held að leikmenn stígi upp og leiði með fordæmi,“ sagði Rothwell en á Englandi þurfa leikmenn undir 18 ára aldri að klæðast ákveðinni „hálsvörn“ sem verndar menn fari svo að þeir falli á ísinn og einhver klessi á þá.

„Ég held að leikmenn taki þá ákvörðun um að bera slíka vörn til að börn fylgi fordæmi þeirra,“ bætti Rothwell við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×