Sport

Svaf í tjaldinu sínu eftir að hafa klárað 108 klukkutíma hlaup

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harvey Lewis brosti út að eyrum eftir að heimsmeistaratitilinn var í höfn,
Harvey Lewis brosti út að eyrum eftir að heimsmeistaratitilinn var í höfn, @bigdogbackyardultra

Harvey Lewis vann Big Dog Bakgarðshlaupið í ár og stóð bæði uppi sem heimsmeistari og heimsmethafi. Hann bætti gamla heimsmetið um sex klukkutíma eftir að hafa hlaupið í 108 klukkutíma og alls 724 kílómetra.

Lewis var samt ekkert að flýta sér heim í rúmið eftir hlaupið. Flestir hefðu eflaust þráð ekkert heitar en að komast í dúnmjúkt rúmið sitt eftir alla þessa kílómetra en á þessum tímapunkti var skynsamlegast að ná að hvíla sig í stað þess að leggja upp í eitthvað meira flakk.

Lewis svaf því bara í tjaldinu sínu í bakgarði Lazarus Lake, sama tjaldi og hafði þjónað honum svo vel þá fjóra sólarhringa og ellefu klukkustundir sem hlaupið stóð yfir.

Lewis fékk gullpeninginn frá Lazarus Lake eftir að sigurinn var í höfn og eyddi síðan klukkutíma í að ræða hlaupið og taka við hamingjuóskum frá þeim sem voru á svæðinu.

Lewis fór síðan að sofa út í garði samkvæmt upplýsingum frá Tracey Outlaw og hafði það ótrúlega gott miðað við það að vera búinn að hlaupa frá 50 til 55 mínútum á hverjum klukkutíma í næstum fjóra og hálfan sólarhring.

Lewis sá til þess að heimsmetið færist frá Ástralíu og til Bandaríkjanna en metið var 102 klukkutímar og var í eigu Phil Gore.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×