Íslenski boltinn

Yfir hálfrar aldar vinna feðganna af Skaganum er komin í loftið

Aron Guðmundsson skrifar
Feðgarnir Jón Gunnlaugsson og Stefán Jónsson hafa lagt á sig óeigingjarna vinnu við að afla upplýsinga og safna saman heimildum um sögu fótboltans á Akranesi. Útkoman er einkar glæsileg vefsíða, asigurslod.is, þar sem auðvelt er að gleyma sér.
Feðgarnir Jón Gunnlaugsson og Stefán Jónsson hafa lagt á sig óeigingjarna vinnu við að afla upplýsinga og safna saman heimildum um sögu fótboltans á Akranesi. Útkoman er einkar glæsileg vefsíða, asigurslod.is, þar sem auðvelt er að gleyma sér. Vísir/Steingrímur Dúi Másson

Feðgarnir Jón Gunn­laugs­son og Stefán Jóns­son hafa undan­farna ára­tugi staðið í ströngu við að safna saman og gera skil merkum heimildum um sögu fót­boltans á Akra­nesi. Út­koman þeirrar vinnu er einkar glæsi­leg vef­síða, Á sigurslóð, sem nú er komin í loftið.

„Hug­myndin, eins og þetta endaði hjá okkur, er nokkurra ára gömul en í heildina hefur verið unnið að þessu verk­efni í rúma hálfa öld,“ segir Jón Gunn­laugs­son, fyrrum leik­maður ÍA (fjór­faldur Ís­lands­meistari og tvö­faldur bikar­meistari með ÍA) og einn þeirra sem stendur að baki vinnunni sem Á sigur­slóð byggir á. „Vefurinn kom náttúru­lega fyrst upp árið 2014 en svo hefur þetta verið að þróast síðan þá.“

„Þetta er búið að taka sinn tíma,“ bætir Stefán, sonur Jóns, við. „Það hafa farið alveg rúm tíu ár í upp­lýsinga­öflunina sjálfa. Það var kannski ekki geysi­lega um­fangs­mikil vinna þau ár en undan­farin fjögur ár höfum við gefið al­menni­lega í. Við náðum að setja smá strúktur á bak við það sem við ætluðum okkur að gera með allar þessar upp­lýsingar og heimildir sem við höfðum aflað okkur.

Þessi nýja vef­síða er náttúru­leg byggð á gömlum vef sem var settur í loftið árið 2014. Sá vefur entist ekki ævina en við vildum ekki láta þá vinnu glatast. Hún var komin inn á kerfi og allar þær upp­lýsingar sem pabbi hafði safnað saman í gegnum tíðina og því var í sjálfu sér auð­velt að byrja aftur. En þá þurftum við að gefa í og við gerðum það.“

Björninn unninn

Það er auð­velt að gleyma sér inn á þessari glæsi­legu heima­síðu. Þar er að finna upp­lýsingar um alla keppnis­leiki ÍA frá upp­hafi, töl­fræði­legar upp­lýsingar um alla leik­menn ÍA frá upp­hafi, þarna eru teknar saman upp­lýsingar um allt lands­liðs­fólk ÍA frá upp­hafi. Þá er á síðunni að finna blaða­greinar, ljós­myndir og mynd­bönd tengd fót­bolta­liðum ÍA.

„Þarna höfum við sankað saman, á einn stað, vinnu margra ein­stak­linga í gegnum tíðina. Blaða­manna, ljós­myndara, á­huga­ljós­myndara og svo fullt af efni sem við höfum geta nálgast í gegnum Tíma­rit.is,“ segir Stefán.

Að sögn Jóns var á­stæðan fyrir upp­hafinu á þessari vinnu ó­sköp ein­föld.

„Þegar að ég var að velta þessu fyrir mér í upp­hafi var ég leik­maður ÍA rúm­lega tví­tugur að aldri. Mér fannst gamla sagan þá vera svo heillandi. Sú saga þá var ekki nema um tuttugu ára gömul en ég var á því að það þyrfti að safna saman þessum upp­lýsingum og heimildum og koma þeim fyrir. Ég vissi að Helgi heitinn Daníels­son hafði mikinn á­huga á þessu. Hann hafði verið að safna saman tölu­vert miklu magni af upp­lýsingum.

Svo var hann að flytja héðan af Skaganum á þessum tíma. Hann lét í hendurnar á mér kassa með ein­hverjum upp­lýsingum. Ég fór að grúska í þessu og þar með var björninn unninn. Við fórum í þetta þá en ég var að mínu mati ekki rétti maðurinn í þetta. Þarna var ég enn leik­maður ÍA, var að stofna fjöl­skyldu og átti eftir að spila hér á Akra­nesi alla­vegana ára­tug í við­bót. Ég hélt þessu þó allan tímann saman og á þessari vinnu byggir vef­síðan. Svo komu Stefán sonur minn og fleiri aðilar að þessu í fram­haldinu. Ég er bara starfs­maður á plani.“

Sagan umlykur mann

Maður myndi ætla að maður færi ekki út í svona vinnu nema að maður hefði virki­lega ást­ríðu fyrir þessu. Ást­ríða ykkar á ÍA er því ó­um­deild ekki satt?

„Það fer ekkert á milli mála,“ svarar Jón sem lék á sínum tíma 343 leiki fyrir ÍA, skoraði 33 mörk , þar á meðal tólf í efstu deild þar sem að hann varð fjórum sinnum Ís­lands­meistari með fé­laginu.

Jón tók ekki bara saman upplýsingar og heimildir um sögu ÍA. Hann hjálpaði líka til við að skrifa glæsta sögu þess.Skjáskot af asigurslod.is

„Ég þekki náttúru­lega sögu fé­lagsins mjög vel, kannski undan­farin 60-70 ár og hef verið þátt­takandi í þessu. Kannski kemur það helst á ó­vart að maður skyldi hafa haldið öllum þessum upp­lýsingum til haga. Þetta er komið og það verður ekki tekið aftur.“

Stefán segir það hafa verið einkar skemmti­legt að standa í þessu brölti með föður sínum.

„Alveg gríðar­lega. Maður hefur alltaf verið um­vafinn ÍA-sögunni. Pabbi vann upp í í­þrótta­húsi á Neðri-Skaganum hérna á sínum tíma. Seinna varð hann svo for­maður hér. Maður man alltaf eftir því, þegar að maður kom hingað niður á völl, að sjá allar veifurnar frá stór­liðunum sem ÍA hafði mætt. Til að mynda Barcelona og Köln. Þessi ást á fé­laginu hefur ein­hvern veginn alltaf verið í blóðinu hjá manni. Á undan­förnum árum hefur þetta svo um­lukið mann. Við erum virki­lega á­nægðir með að þessi vef­síða sé komin í loftið. Nú er bara halda þessu við, passa að þetta detti ekki niður aftur.“

Þá kemur Jón með at­hyglis­verðan punkt við sögu ÍA sem kemur allri þjóðinni við.

„Lands­leikja­saga Akur­nesinga er mikil. Hér eru rúm­lega 200 leik­menn sem hafa spilað með lands­liðum Ís­lands, karla og kvenna. Þetta höfum við tekið saman og á eftir að koma enn betur. Við sjáum það á mörgum af frægu lands­leikjum Ís­lands í gegnum tíðina voru Akur­nesingar í lykil­hlut­verki í lands­liðunum.“

Óhætt er að mæla með því að fólk skelli sér inn á Sigurslóð, glæsilega heimasíðu þar sem hægt er að finna allt milli himins og jarðar um sögu fótboltans á Akranesi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×