Íslenski boltinn

Graf­alvar­leg staða: KSÍ skoðar mögu­­legar lausnir en stjórnar ekki öllu

Aron Guðmundsson skrifar
Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ segir sambandið þessa stundina afla gagna um mögulegar leiðir til að hafa Laugardalsvöll kláran fyrir leiki Breiðabliks í Sambandsdeild Evrópu í vetur
Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ segir sambandið þessa stundina afla gagna um mögulegar leiðir til að hafa Laugardalsvöll kláran fyrir leiki Breiðabliks í Sambandsdeild Evrópu í vetur Vísir/Samsett mynd

Klara Bjart­marz, fram­kvæmda­stjóri Knatt­spyrnu­sam­bands Ís­lands, segir þá stöðu sem upp er komin varðandi komandi leiki Breiða­bliks í riðla­keppni Sam­bands­deildar Evrópu í vetur, sýna þá graf­alvar­legu stöðu sem ís­lenskur fót­bolti er í.

Breiða­blik hefur greint Evrópska knatt­spyrnu­sam­bandinu (UEFA) frá því að liðið ætli sér að spila sína leiki í riðla­keppni Sam­bands­deildarinnar á Laugar­dals­velli. Frá þessu greindi Ey­steinn Lárus Péturs­son, fram­kvæmda­stjóri Breiða­bliks í við­tali við í­þrótta­deild Stöðvar 2 í gær.

Heima­leikir Breiða­bliks í riðla­keppninni fara fram þann 5.októ­ber, 9.nóvember og 30.nóvember næst­komandi en knatt­spyrnu­vellir á Ís­landi, fyrir utan Laugar­dals­völl, upp­fylla ekki þá staðla sem UEFA setur á knatt­spyrnu­velli fyrir leiki í Evrópu­keppnum.

„Þessi mál þarf að hugsa til framtíðar“

Hins vegar er ljóst að fara þarf í að­gerðir til þess að halda leik­fletinum sjálfum, á ó­upp­hituðum Laugar­dals­vellinum, í leik­hæfu á­standi.

„Þetta sýnir bara þá stöðu sem ís­lenskur fót­bolti er í,“ segir Klara í sam­tali við Vísi. „Við eigum ekki leik­vang sem við getum treyst á að sé leik­hæfur allt árið, sem er bara graf­alvar­legt fyrir hreyfinguna í heild sinni. „Við höfum bent á þetta um ára­bil en því miður hefur bara ekkert gerst.“

Ó­víst sé á þessari stundu hversu stór kostnaðar­liðurinn verður við það að halda Laugar­dals­velli leik­hæfum á þessum um­rædda tíma­bili.

„Það er bara eitt­hvað sem á eftir að ræða og við munum leitast við að komast að ein­hverri skyn­sam­legri niður­stöðu hvað það varðar en þurfum líka að hugsa þetta til fram­tíðar. Þetta er Breiða­blik í ár, svo eru kvenna­liðin okkar að spila og í raun er þetta bara spurning um það hvaða fé­lag nær svona langt næst. Þessi mál þarf að hugsa til fram­tíðar en ekki bara tjalda til einnar nætur.

Eins og staðan er núna erum við bara að afla gagna og fara yfir stöðuna. Það er náttúru­lega ekki alveg sama að gera völlinn leik­hæfan í nóvember eins og í mars, það er munur þar á. Það að gera völlinn leik­hæfan fyrir þessa leiki Breiða­bliks í Sam­bands­deildinni getur verið minni að­gerð en vissu­lega er þetta mjög um­fangs­mikið verk­efni.“

Með fjórar mögulegar leiðir

KSÍ er nú að leggja loka­hönd á minnis­blað með fjórum mögu­legum leiðum sem hægt væri að fara með það að mark­miði að gera leik­flötinn leik­hæfan.

„Þær eru allt frá því að við notum þann búnað sem við eigum til hér yfir í að vera með hita­pylsu hér í mánuð. Kostnaðurinn veltur því á þeirri leið sem verður fyrir valinu.“

Hitapulsan margfræga sem var sett upp á sínum tíma á Laugardalsvelli.mynd/stöð2

Blikar benda á grein í leyfis­reglu­gerð KSÍ þar sem segir að KSÍ muni tryggja að Laugar­dals­völlur upp­fylli öll sett skil­yrði fyrir KSÍ flokk A (UEFA flokk 3) og að sam­bandið bjóði hann til notkunar fyrir öll fé­lög sem eru í þeirri stöðu að þurfa annan völl fyrir leiki í Evrópu­keppnum fé­lags­liða, þannig að hann geti þjónað sem fastur vara­völlur í Evrópu­keppnum fé­lags­liða.

Lið Breiða­bliks er fyrsta karla­lands­liðið sem kemst alla leið í riðla­keppni í Evrópu­keppni, sem er alla jafnan leikin yfir vetrar­tímann í Evrópu.

Það er alveg skýrt fyrir ykkur hjá KSÍ að það er undir ykkur komið að hafa völlinn leik­hæfan?

„Þetta er reglu­gerð sem hefur verið lengi við lýði án þess að það hafi eitt­hvað reynt á þetta til­tekna á­kvæði. Þetta er bara einn af þessum hlutum sem við eigum eftir að ræða og fara yfir.“

Blikar fögnuðu vel og innilega eftir að sætið í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar var tryggt á dögunumVísir/Hulda Margrét

Staða Íslands sé eindæmi

Það er fundað stíft þessa dagana í höfuð­stöðvum KSÍ og reynt að finna lausn á málinu.

„Við höfum tvisvar sinnum með for­ráða­mönnum Breiða­bliks undan­farna viku og eigum fund með þeim núna í dag. Við höfum einnig fundað með full­trúum Reykja­víkur­borgar og UEFA. FIFA hefur einnig sett sig í sam­band við okkur og þessa stundina erum við bara að safna gögnum varðandi það til hvaða að­gerða við getum gripið til, bæði núna næstu mánuðina en líka upp á fram­haldið. Hvert við stefnum, hvert við ætlum að fara.

Því miður held ég að staða Ís­lands sé ein­fald­lega eins­dæmi í Evrópu hvað þetta varðar. Við vitum alla­vegana ekki til þess að hjá annarri Evrópu­þjóð sé þjóðar­leik­vangur sem sé verr búinn heldur en Laugar­dals­völlur.“

Geta ekki stjórnað öllum þáttum

Það er krefjandi og snúið verk­efni fram­undan en þetta er verk­efni sem verður leyst eða hvað?

„Já, eða eigin­lega já og nei. Við getum fundið lausn á því að gera það sem við getum til að auka líkurnar á því að völlurinn verði leik­hæfur en síðan getur veðrið bara verið okkur ó­hag­stætt.

Við getum ekkert stjórnað því að það verði ekki snjó­stormur á meðan á leik stendur og fimm­tán metrar á sekúndu. En við getum gert það sem við getum til þess að flötur vallarins verði eins góður og mögu­legt er við þær að­stæður sem verða uppi. Við eigum á­kveðinn búnað sem við erum búin að koma okkur upp eftir að hafa farið í gegnum svona ferli áður.

En vanda­málið er náttúru­lega stærri en komandi leikir í nóvember. Vanda­málið er staðan sem ís­lenskur fót­bolti er í.“

„Höfum fengið á okkur hótanir“

Reglu­lega hnippi bæði full­trúar UEFA en einnig FIFA í KSÍ varðandi Laugar­dals­völl.

„Við áttum fund með UEFA fyrir hálfum mánuði síðan og eigum reglu­lega fundi með sam­bandinu út af vallar­málum hér á Ís­landi. Bæði UEFA og FIFA hafa átt frum­kvæði að því undan­farið að hafa sam­band við okkur og spyrjast fyrir um það hver staðan sé á þessum málum hjá okkur, hvort það væri yfir höfuð eitt­hvað að gerast.

Laugar­dals­völlur sé á marg­þættum undan­þágum.

„Og við höfum fengið á okkur hótanir þess efnis að gætum átt hættu á því að fá ekki að spila lengur á vellinum. Það er ekkert nýtt fyrir okkur og sam­töl um þetta höfum við átt, bæði við ríkis­valdið sem og borgar­yfir­völd, en án árangurs.

Svo eru Evrópu­keppnir fé­lags­liðanna, sem og lands­liðs­gluggarnir sjálfir, sí­fellt að breytast. Þörfin er því knýjandi, bæði fyrir ís­lensk fé­lags­lið, lands­lið sem og ís­lenskan fót­bolta í heild sinni. Það þarf betri lausn heldur en ó­upp­hitaðan gras­völl.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×