Sport

Fjöldi kepp­enda á HM í þrí­þraut veiktust eftir að hafa synt í gegnum skolp

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þríþrautarkapparnir að synda í skítugum sjónum fyrir utan Sunderland.
Þríþrautarkapparnir að synda í skítugum sjónum fyrir utan Sunderland. Getty/Will Matthews

Skipuleggjendur heimsmeistaramótsins í þríþraut og borgaryfirvöld í Sunderland í Englandi hafa verið gagnrýnd harðlega eftir að 57 keppendur á HM í þríþraut veiktust illa.

Keppendurnir greindust með e-coli bakteríu sem er saurkólígerill. Ástæðan er að keppendurnir þurftu óaðvitandi að synda í gegn skolp í sundhluta keppninnar.

Sundið fór fram á Roker ströndinni og þar er nú mikil rannsókn í gangi á saurmagni í sjónum. Nýjustu upplýsingar sýna að þar mældist saurmengun hundrað sinnum yfir venjulegum mörkum.

Það lítur út fyrir að miklu magni af skolpi hafi verið sleppt í sjóinn fyrir utan strönd Sunderland og að skolpið hafi síðan rekið inn á svæðið þar sem sundkeppnin fór fram.

Einn þríþrautarkappanna brást við þessu á samfélagsmiðlum og sagði: „Þetta skýrir það af hverju ég eyddi mánudagskvöldinu með hausinn í klósettinu eftir að hafa keppa á sunnudagsmorguninn.“

Í þríþraut byrja keppendur á að synda vanalega einn og hálfan kílómetra, þá taka við 40 kílómetrar á hjóli og keppnin endar síðan á 10 kílómetra hlaupi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×