Í gær klukkan 19:39 barst Neyðarlínunni tilkynning um sjóslys utan Njarðvíkurhöfn þar sem greint var frá því að tveir menn væru í sjónum. Tókst viðbragðsaðilum að ná þeim upp á land rétt rúmum hálftíma síðar, klukkan 20:11.
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, staðfestir við fréttastofu að annar mannanna hafi verið úrskurðaður látinn við komu á sjúkrahús.
Í tilkynningu frá lögreglunni segir að hinn látni sé karlmaður á sjötugsaldri. Hann var fluttur meðvitundarlaus af vettvangi með þyrlu Landhelgisgæslunnar á slysadeild Landspítalans í Fossvogi.
Lögreglan telur að mennirnir hafi verið tveir um borð á fimm metra sportbáti sem sökk. Er rannsókn málsins á frumstigi hjá lögreglu.
Ekki kemur fram í tilkynningunni hver líðan hins mannsins er.