Erlent

Mesta fjölgun í Evrópu­sam­bandinu í meira en hálfa öld

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Fæðingartíðnin er hæst á Íslandi. Innflutningur fólks spilar hins vegar stærri rullu en barnsfæðingar.
Fæðingartíðnin er hæst á Íslandi. Innflutningur fólks spilar hins vegar stærri rullu en barnsfæðingar. Vísir/Vilhelm

Íbúum Evrópusambandslanda fjölgaði um 2,7 milljónir árið 2022 sem er mesta hækkun síðan árið 1965. Tvö ár þar á undan var fólksfækkun.

Innflutningur fólks, einkum flóttafólks frá Úkraínu, skýrir að mestu leyti þann viðsnúning í íbúaþróun Evrópu sem varð á árinu 2022. Árin 2020 og 2021, þegar COVID-19 faraldurinn geisaði, fækkaði íbúunum um 300 þúsund hvort ár. En fram að því hafði íbúum fjölgað um eina milljón á ári.

Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Eurostat, tölfræðistofnun Evrópusambandsins. Stofnunin er með tölur frá EFTA ríkjunum og umsóknarríkjum á borð við Tyrkland og Serbíu.

Tölur skortir frá löndum eins og Bretlandi, Rússlandi og Úkraínu. Vitað er að fólksflótti er mikill frá Rússlandi. Enn meiri er hann frá Úkraínu vegna stríðsins og flestir flóttamennirnir hafa farið til Evrópusambandslanda.

Fjölgun í vestri en fækkun í austri

Mesta fjölgunin var í Þýskalandi, 1,1 milljón manns. Tyrkjum fjölgaði um 600 þúsund, Spánverjum um 560 þúsund, Tékkum um 310 þúsund, Hollendingum um 220 og Frökkum um 200 þúsund. Fjölgun varð á öllum Norðurlöndunum, mest í Svíþjóð. Íslendingum fjölgaði um 11.500 manns, en fyrir utan mikinn innflutning fólks eru Íslendingar með hæstu fæðingartíðnina í allri álfunni.

Fækkunin var mest í Ítalíu, 180 þúsund manns. Fyrir utan Ítalíu og Grikkland var íbúafækkun bundin við austurhluta álfunnar. Meðal annars fækkun upp á 130 þúsund í Póllandi og Serbíu og 90 þúsund í Ungverjalandi og Moldóvu.

Fleiri dauðsföll en fæðingar

Þrátt fyrir mikla fjölgun er lækkandi fæðingartíðni og öldrun þjóða enn þá mikið vandamál í Evrópu. Árið 2022 voru fleiri dauðsföll en fæðingar í Evrópusambandslöndum sem þýðir að ef ekki hefði komið til innflutningur hefði íbúum haldið áfram að fækka.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×