Erlent

„Eins og að lenda á stálvegg“

Samúel Karl Ólason skrifar
Úkraínskir hermenn á víglínunni nærri Kreminna í austurhluta Úkraínu.
Úkraínskir hermenn á víglínunni nærri Kreminna í austurhluta Úkraínu. AP/Roman Chop

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, sagði í gær að gagnsókn Úkraínumanna væri hafin. Hann gaf lítið fyrir orð Valdimír Pútín, forseta Rússlands, um að gagnsóknin hefði engum árangri skilað og bað blaðamenn þess í stað um að koma því til Pútíns að úkraínskir herforingjar væru í góðu skapi þessa dagana.

Þetta sagði Selenskí á blaðamannafundi með Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, í gær. Hann sagði gagnsóknir hafnar og sagðist ekki vilja fara nánar út í það. Yfirvöld í Úkraínu hafa varist allra fregna af átökunum, sem eiga sér stað víða í Úkraínu.

Úkraínumenn segja að sóknin muni taka tíma og að mannfall sé óhjákvæmilegt.

Einn talsmaður úkraínska hersins segir þó að Úkraínumenn hafi náð frekari árangri við Bakhmut í Dónetsk-héraði. Borgin sjálf féll nýverið í hendur málaliða Wagner group en Úkraínumenn hafa verið að sækja hægt fram bæði norður og suður af borginni.

Varnarmálaráðuneyti Bretlands sagði í gær að á undanförnum dögum hefðu Úkraínumenn gert árásir víða í austur- og suðurhluta Úkraínu. Góður árangur hefði náðst á nokkrum stöðum, þar sem Úkraínumenn hefðu brotið sér leið í gegnum fyrstu varnarlínu Rússa.

Þá sagði ráðuneytið að rússneskar hersveitir hefðu staðið sig misvel. Sumar hefðu varist vel og aðrar hefðu flúið í óðagoti og jafnvel í gegnum eigin jarðsprengjusvæði, með tilheyrandi mannfalli.

Enn sem komið er, er útlit fyrir að Úkraínumenn hafi lagt mesta áherslu á sókn í Sapórisjíahéraði og Dónetsk í suðurhluta Úkraínu. Með því að sækja fram þar gætu Úkraínumenn skorið á landbrú Rússa milli Rússlands og Krímskaga. Með því gætu Úkraínumenn gert Rússum mun erfiðara að halda Krímskaga.

Rússar hafa þó byggt upp umfangsmiklar varnir á þessu svæði.

Fregnir hafa einnig borist af aðgerðum Úkraínumanna nærri Kreminna í austurhluta Úkraínu. Rússneskir herbloggarar vöruðu við því í gærkvöldi að Úkraínumenn virtust ætla sér að sækja fram þar.

Úkraínkur hermaður í skotgröf í austurhluta Úkraínu.AP/Roman Chop

Sérfræðingar segja þó að Úkraínumenn virðist enn vera að þreifa á vörnum Rússa, í leit að veikleika sem hægt sé að beina meginþunga sóknarinnar að. Þrátt fyrir það er útlit fyrir að Úkraínumenn hafi frelsað nokkur þorp og bæi í suðri, ef marka má rússneska herbloggara sem segja rússneska hermenn hafa hörfað til að forðast það að verða umkringdir.

Úkraínskir hermenn birtu í morgun myndband af sér í þorpinu Blagodatne í Dónetsk.

Búast við erfiðari bardögum en áður

Einn hermaður sem tók þátt í aðgerðunum í Sapórisjía og Dónetsk sagði Wall Street Journal að Úkraínumenn hefðu lent á stálvegg. Þeir hafi sótt fram á tveimur Leopard skriðdrekum frá Þýskalandi og bryndrekum frá Bandaríkjunum. Stórskotalið hafi komið auga á, þar sem þeir voru á jarðsprengjusvæði og þyrlur og orrustuþotur hafi einnig verið notaðar til að ráðast á þá.

„Þeir voru bara að bíða eftir okkur. Tilbúnar varðstöðvar alls staðar. Þetta var eins og að lenda á stálvegg, þetta var hræðilegt,“ sagði hermaðurinn.

Myndefni af þessari misheppnuðu sókn hefur verið birt víða á rússneskum samfélagsmiðlum en þetta var í fyrsta sinn sem Hlébarðarnir svokölluðu sáust á víglínunum í Úkraínu. Svo virðist þó sem að hermennirnir hafi flestir komist undan.

Tveir aðrir menn sem ræddu við WSJ segja að rússnesku hermennirnir sem þeir hafi mætt í suðurhluta Úkraínu séu blanda af atvinnuhermönnum og kvaðmönnum. Baráttuandi þeirra virðist töluvert verri en Úkraínumanna. Einn til viðbótar sagði sína sveit hafa náð árangri gegn Rússum. Þeir hefðu sótt fram og væru þess vegna í góðu skapi.

„Það er óhjákvæmilegt að við missum menn en við reynum að ganga úr skugga um að mannfall þeirra sé meira en okkar.“

Allir sem rætt var við sögðust búast við því að sóknin yrði erfiðari en sókn Úkraínumanna síðasta sumar og haust, þegar þeir frelsuðu Karkívhérað og stóran hluta Khersonhéraðs. Vísa þeir sérstaklega til varnanna sem Rússar hafa byggt upp.

Einn hermannanna, sem tók þátt í aðgerðunum í Kherson í fyrra, sagði að yfirmenn þeirra hefðu sagt að þetta yrði erfiðara. Sá er 28 ára gamall og er kallaður Did. Hann var einn þeirra sem var sendur til að sækja Leopard skriðdreka sem var notaður til sóknarinnar sem nefnd er hér að ofan.

Did varð þó fyrir því óláni að stíga á jarðsprengju og missa annan fótinn. Hann virðist þó nokkuð borubrattur og segir að um leið og hann fái gervifót, ætli hann sér að snúa aftur á víglínuna.

Hér að neðan má sjá eitt af nokkrum drónamyndböndum sem Úkraínumenn birtu í gær af árás úkraínskra hermanna á skotgröf Rússa í Úkraínu. Vert er að vara lesendur við því að myndbandið getur vakið óhug.


Tengdar fréttir

Hvetur önnur ríki til að fara að fordæmi Íslendinga

Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, sendi í dag þakkir til Þórdísar Kolbrúnu R. Gylfadóttur, utanríkisráðherra Íslands. Það gerði hann vegna ákvörðunar Íslendinga að leggja niður starfsemi í sendiráðinu í Rússlandi og krefjast þess að Rússar takmarki umsvif sín hér á landi.

„Það er enn engin hjálp“

Fólk sem situr fast í húsum á austurbakka Dnipróár í Úkraínu segir litla hjálp berast frá Rússum. Fólk sem hefur reynt að koma öðrum til bjargar segist hafa lent í því að rússneskir hermenn taki báta þeirra. Aðrir segja að hermennirnir hjálpi ekki fólki nema þau hafi rússnesk vegabréf.

Er gagnsókn Úkraínumanna hafin?

Úkraínumenn eru byrjaðir að gera árásir í suðausturhluta Úkraínu. Fregnir hafa borist af tiltölulega smáum árásum í Dónetsk- og Sapórisjía-héruðum og eru Úkraínumenn sagðir hafa náð einhverjum árangri. Erfitt er þó að sannreyna fregnirnar að svo stöddu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×