Sport

Anníe byrjaði best og er sú eina í heims­leika­sæti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anníe Mist Þórisdóttir byrjaði langbest af íslensku stelpunum.
Anníe Mist Þórisdóttir byrjaði langbest af íslensku stelpunum. Instagram/@anniethorisdottir

Anníe Mist Þórisdóttir er í sjöunda sæti eftir fyrstu grein af sjö á undanúrslitamóti Evrópu fyrir heimsleikana í CreossFit.

Fjórar íslenskar konur taka þátt í mótinu en ellefu efstu tryggja sér sæti á heimsleikunum í haust.

Fyrsta greinin var samansafn að æfingum úr lyftingasalnum. Þar áttu stelpurnar að hjóla þrjá kílómetra, toga 81,5 kg lóð tæpa 26 metra, hlaupa tvo kílómetra, toga lóðið aðra tæpa 26 metra, skíða einn kílometra á skíðavél og toga svo lóðið aðra 28 metra. Keppendur höfðu 30 mínútur til að klára greinina.

Anníe kláraði fyrstu greinina á 25 mínútum, 15 sekúndum og 19 sekúndubrotum. Hún var sextán sekúndum frá sjötta sætinu og tæplega einni og hálfri mínútu á eftir Jennifer Muir sem vann fyrstu grein.

Engin önnur íslensk kona situr í heimsleikasæti eftir þessa fyrstu grein en Sera Sigmundsdóttir er í þrettánda sæti. Hún kláraði á 25 mínútum, 55 sekúndum og 21 sekúndubroti.

Sólveig Sigurðardóttir er í 26. sæti en Þuríður Erla Helgadóttir var í vandræðum og endaði í 52. sæti af 59 keppendum.

Katrín Tanja náði öðru sæti á undanúrslitamóti sínu um síðustu helgi en hún var þá níunda eftir fyrstu grein. Keppt er í sömu greinum á öllum undanúrslitamótunum.

Þetta er fyrri greinin af tveimur í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×