Umfjöllun: ÍBV - Tindastóll 1-2 | Norðankonur gerðu góða ferð til Eyja

Arnar Skúli Atlason skrifar
Olga Sevcova er lykilmaður í liði ÍBV.
Olga Sevcova er lykilmaður í liði ÍBV. VÍSIR/BÁRA

Tindastóll vann í kvöld góðan útisigur á ÍBV þegar liðin mættust í Bestu deild kvenna í Vestmannaeyjum. Lokatölur 2-1 og Tindastóll nú komið upp fyrir ÍBV í töflunni.

Í dag mættust lið ÍBV og Tindastóls í Bestu deild kvenna en leikið var í Vestmannaeyjum. ÍBV var fyrir leikinn í ÍBV í sjöunda sæti deildarinnar með sex stig en Tindastóll í áttunda sæti með 5 stig og því búist við hörkuslag.

Leikurinn hófst af krafti því strax á fyrstu mínútu var ÍBV komið yfir, sending Aldísar Maríu Jóhannsdóttur í gegnum vörn Eyjakvenna náði ekki á samherja og endaði hjá Guðnýju Geirsdóttur sem sendir boltann strax langt fram og yfir vörn Tindastóls. Þar kom Olga Sevcova á fullri ferð og setti boltann yfir Monica Wilhelm sem hafði hætt við að koma út úr marki Tindastóls og staðan því orðin 1-0 fyrir ÍBV strax í upphafi.

Leikurinn var rólegur og mikið jafnræði var á liðunum. Holly O´Neill átti stangarskot þar sem hún fékk boltann úti á vinstri kantinum, labbaði framhjá varnarmönnum Tindastóls og átti skot sem hafnaði í stönginni. Frábærlega gert hjá Holly sem sýndi þarna mögnuð einstaklingsgæði.

Tindastóll fékk sitt fyrsta færi þegar Melissa Garcia átti skot úr teignum eftir sendingu úr vörn Tindastóls en Guðný varði laust skot hennar og átti ekki í neinum vandræðum.

Stuttu seinna braust Aldís upp hægri vænginn og sendi boltann fyrir markið, þar mætti Melissa á undan Guðnýju í boltann og setti hann yfir hana og í markið fór boltinn. Tindastóll búi' að jafna leikinn 1-1 upp úr engu.

Eftir þetta gerðist lítið í leiknum. Bæði lið héldu illa í boltann og var mikið jafnræði og lítið gerðist út háflleikinn. Staðan var jöfn þegar flottur dómari leiksins flautar til hálfleiks.

Seinni hálfleikur hófst eins og fyrri hálfleikur var, gæðin í leiknum voru ekki mikil en ÍBV var sterkari aðilinn í leiknum. Þær fengu fyrsta færi seinni hálfleiks, eftir aukaspyrnu frá Olgu átti Haley Thomas skot framhjá markinu en hættan var ekki mikil.

Nokkrum mínútum seinna var Holly aftur á ferðinni, núna átti hún skot af löngu færi sem var nær því að fara í innkast en á markið og var þetta lýsandi við gæðin sem voru í gangi. Bæði lið gerðu breytingar á sínum liðum á þessum tímapunkti til að fríska upp á leikinn.

Fyrsta færi Tindastóls kom þegar hálfleikurinn var rúmlega hálfnaður þegar Murielle Tiernan keyrði upp hægri kantinn og sendi fyrir markið. Þar var það Melissa sem fórnaði sér í boltann, fékk hann í sig og þaðan fór hann í netið og staðan orðin 2-1 fyrir Tindastól. Þetta var gegn gangi leiksins því ÍBV voru sterkari aðilinn.

ÍBV fékk tvö færi áður en leiknum lauk. Fyrst fékk Holly sendingu frá Olgu inn á teiginn og var ein á auðum sjó en náði ekki að koma boltanum fyrir sig. Monica í markinu náði að grípa inn í áður en Holly setti boltann í netið. Kristjana Sigurz fékk einnig færi, sömuleiðis eftir undirbúning frá Olgu sem kom boltanum fyrir á Þóru Björg Stefánsdóttur, hún lagði boltann út á Kristjönu sem átti hörku skot í stöngina á marki Tindastóls en inn vildi boltinn ekki.

Efitr þetta fjaraði leikurinn út. Tindastólsstelpur voru klókar að koma boltanum á Murielle sem náði að halda honum og náði þær að drepa leikinn alveg og landa þessum mikilvæga sigri. Sterkur sigur hjá Tindastól í mjög jöfnum leik sem hefði auðveldlega getað dottið hinu megin.

Af hverju vann Tindastóll?

Tindastóll nýtti sín færi betur en ÍBV og leikplanið gekk upp þrátt fyrir að fá á sig mark í byrjun, Melissa gerði gæfumuninn, tvö mörk á hana í dag. Leikur sem hentaði Tindastól bara mjög vel. ÍBV fengu góða sénsa og átti tvö skot í stöng.

Hverjir stóðu upp úr?

Melissa og Murielle voru báðar mjög öflugar og náðu vel saman. María og Gwen Mummert í vörn Tindastóls stóðu einnig fyrir sínu og vörðust vel. Olga og Holly voru öflugar að búa til fyrir ÍBV en þau færi nýtti liðið ekki.

Hvað gekk illa?

Báðum liðum gekk illa að spila boltanum, gæðin voru ekki mikil og færin í dag komu eftir einstaklingsframtök. Þetta var lokaður leikur en bæði lið reyndu hvað þau gátu en gæðin voru bara ekki þarna.

Hvað gerist næst?

ÍBV fer í Reykjanesbæ og heimsækir Keflavík á HS Orku völlinn en Tindastóll fær lið Þróttar í heimsókn á Sauðárkróksvöll, báðir leikir þann 6. júní næstkomandi.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira