Lífið

Ný­sjá­lenskur James Bond-leik­stjóri látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Lee Tamahori var þekktur fyrir að vera ötull baráttumaður fyrir menningu maóra, nýsjálenskra frumbyggja.
Lee Tamahori var þekktur fyrir að vera ötull baráttumaður fyrir menningu maóra, nýsjálenskra frumbyggja. EPA

Nýsjálenski kvikmyndaleikstjórinn Lee Tamahori er látinn, 75 ára að aldri. Hann leikstýrði meðal annars James Bond-myndinni Die Another Day sem gerðist meðal annars á Íslandi.

Nýsjálenskir fjölmiðlar greindu frá andláti Tamahori í morgun, en hann hafði um árabil glímt við Parkinson-veiki.

Tamahori sló í gegn með fyrstu kvikmynd sinni í fullri lengd, Once Were Warriors, sem var frumsýnd árið 1994. Myndin er enn ein af fimm tekjuhæstu kvikmyndum Nýja-Sjálands.

Eftir Once Were Warriors hélt Tamahori til Bandaríkjanna og leikstýrði fjölda stórmynda, meðal annars The Edge frá árinu 1997 sem skartaði Anthony Hopkins í aðalhlutverki og svo James Bond-myndinni Die Another Day frá 2002 þar sem Pierce Brosnan fór með hlutverk Bond.

Hann leikstýrði einnig XXX: State of the Union og myndinni Along Came a Spider með Morgan Freeman. Þá leikstýrði hann einnig einum þætti í annarri þáttaröð The Sopranos.

Síðasta kvikmynd leikstjórans var The Convert frá árinu 2023 þar sem ástralski leikarinn Guy Pearce fór með aðalhlutverk.

Tamahori var þekktur fyrir að vera ötull baráttumaður fyrir menningu maóra, nýsjálenskra frumbyggja.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.