Sport

„Þó ég hafi ekki æft nema tvisvar þá er geggjað að koma hingað inn og maður er velkominn“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Eyþór Wöhler fór beint í byrjunarliðið hjá HK
Eyþór Wöhler fór beint í byrjunarliðið hjá HK Facebook/HK

Eyþór Aron Wöhler, leikmaður HK, spilaði sinn fyrsta leik með liðinu dag í nýliðaslag Bestu deildarinnar gegn Fylki. Leikurinn var jafn framan af en HK tókst að tryggja sér sigurinn á lokamínútum leiksins með marki frá Örvari Eggertssyni.

„Tilfinningin er hreint út sagt frábær, í mínum fyrsta leik er kærkomið að ná í sigur og það á sætan máta eins og varð í enda leiksins. Vel gert hjá Atla og Örvari í markinu og geggjað að ná sigrinum, „solid“ frammistaða hjá liðinu í heild sinni.“

Eins og segir var þetta jafn leikur milli nýliða deildarinnar, staðan var jöfn allt fram að 84. mínútu leiksins.

„Fylkir var ekkert að skapa sér þannig lagað, en við ekki svo sem heldur. En við náðum að klára þetta í endann og það er það eina sem skiptir máli.“

Eyþór gekk í raðir HK í vikunni að láni frá Breiðablik. Hann segir viðtökurnar frá félaginu hafa verið góðar.

„Heldur betur góðar viðtökur, frábær klúbbur og HK á allt hrós skilið og þó ég hafi ekki æft nema tvisvar þá er geggjað að koma hingað inn og maður er velkominn.“

Eyþór var ánægður með sigurinn og mun fagna dátt með nýju félagi í kvöld þegar herrakvöld HK fer fram.

„Heldur betur, það verður bara fagnað fram á nótt. Nei ég segi svona, næsti leikur er á miðvikudaginn og við ætlum okkur að setja allt púður í það. Við förum í alla leiki til þess að vinna þá og ætlum okkur að setja allt í botn og vinna næsta leik.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×