Tíska og hönnun

Fata­hönnuðurinn Mary Qu­ant er látin

Atli Ísleifsson skrifar
Mary Quant árið 1975.
Mary Quant árið 1975. Getty

Breski fatahönnuðurinn Lafði Mary Quant er látin, 93 ára að aldri. Hún átti þátt í að móta tísku sjöunda áratugarins með hönnun sinni á stuttum pilsum og fleiru.

Fjölskylda Mary Quant greinir frá því að hún hafi andast á heimili sínu í Surrey í morgun.

Í tilkynningu frá fjölskyldunni segir að Quant hafi verið mikill frumkvöðull á sviði tísku og ein þeirra tískuhönnuða sem hafi náð hvað mestri alþjóðlegri hylli.

Fyrrverandi ritstjóri tískutímaritsins Vogue, Alexandra Schulman, er ein þeirra sem minnist Quant á Twitter og segir hana hafa verið brautryðjanda í heimi tískunnar. „Hugsjónakona með svo miklu meira en bara frábæra hárgreiðslu.“

Mary Quant fæddist í London árið 1930 og var dóttir tveggja velskra grunnskólakennara. Hún stundaði listnám við Goldsmiths College þar sem hún kynntist verðandi eiginmanni sínum, Alexander Plunket Greene, sem átti þátt í að koma vörumerki Mary Quant á koppinn, að því er segir í frétt BBC.

Hún byrjaði snemma að hanna sín eigin föt og opnaði svo verslun sína, Bazaar á Kings Road í hverfinu Chelsea árið 1955.

Mary Quant átti þátt í að móta tísku sjöunda áratugarins með hönnun sinni á stuttum pilsum. Myndin er tekin árið 1967.Getty





Fleiri fréttir

Sjá meira


×