Lífið

„Gjaldþrotið var mér einum að kenna og lagðist þungt á mig”

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Halldór er eigandi Henson sem framleitt hefur íþrótafatnað undir samnefndu merki í tugi ára. Á árum áður lék hann knattspyrnu, meðal annars með meistaraflokki Vals.
Halldór er eigandi Henson sem framleitt hefur íþrótafatnað undir samnefndu merki í tugi ára. Á árum áður lék hann knattspyrnu, meðal annars með meistaraflokki Vals.

Halldór Einarsson, eigandi Henson, segist enn elska að mæta í vinnuna alla morgna eftir áratugastörf við að hanna og sauma íþróttaföt. Halldór, sem er oftast kallaður Henson er nýjasti gesturinn í Podcasti Sölva Tryggvasonar. Þar talar hann um hve ótrúlegar breytingar hafi átt sér stað síðan hann stofnaði íþróttafyrirtækið Henson með eina saumavél að vopni aðeins 22 ára gamall.

„Ég er 75 ára gamall í dag, en mér finnst þetta í raun jafnáhugavert og skemmtilegt og þegar ég var ungur maður. Þetta eru orðin meira en 50 ár og það hefur gríðarlega mikið breyst. Þegar ég byrjaði fyrst átti maður svo sem einhverjar treyjur sem maður gat byrjað að herma eftir, en þetta var auðvitað býsna frumstætt. En komandi úr íþróttunum fann ég að það var hreinlega sár vöntun á íslenskum markaði. Það spilaði stóran þátt í að ég ákvað að byrja þessa vegferð. Ég fór á sýningu í London og sá þar í fyrsta sinn nælonefni í treyjur. Fyrir mér var það algjör bylting og ég fór strax í að finna fyrirtækið sem var að framleiða nælonið, rétt utan við Manchester, og fékk að kaupa af þeim. En ég átti svo eftir að komast að því að það að reka framleiðslufyrirtæki á þessum tíma var aðeins flóknara en í dag. Ekkert internet og gat verið talsvert mikið vesen. Stundum komu vitlaus föt til baka eftir pantanir og þá voru góð ráð dýr. Það kostaði mjög mikið að hringja til útlanda á þessum tíma og þess vegna var oft vænlegra að skrifa bréf þó að það tæki langan tíma. Út frá því veseni kviknaði svo hugmyndin að því að framleiða fötin hreinlega bara hérna heima,” segir Halldór sem hefur upplifað hæðir og lægðir í gegnum árin í viðskiptunum.

„Ég hef upplifað allan skalann. Alveg frá því að vera skítblankur að reyna að redda hlutunum og redda söluskattinum á síðustu stundu, yfir í að vera á þeim stað að verða sterkríkur maður ungur að aldri.”

Halldór hefur verið viðloðandi viðskipti í mörgum löndum, en endaði alltaf á að setja kraftana í Henson. Eitt það erfiðasta sem Halldór hefur farið í gegnum var þegar fyrirtækið sem hann stofnaði ungur varð gjaldþrota eftir mörg ár af velgengni:

„Það hafði verið ofboðslegur kraftur í fyrirtækinu og gekk í raun mjög vel. Við vorum að gera allt rétt, en stundum ætlar maður sér um of. Ég fór aldrei persónulega í gjaldþrot, en það var gríðarlega þungt að missa fyrirtækið í þrot eftir að hafa reynt allt til að halda því. Það sem var erfiðast var að ég gat ekki kennt neinum nema sjálfum mér um. Það var enginn maður úti í bæ sem hafði verið vondur við mig eða neitt slíkt. En þessi tími sýndi mér hvað það var mikið af fólki sem vildi mér vel og vildi greiða götu mína á allan hátt. En það að þurfa að taka ábyrgðina sjálfur og geta ekki kennt neinum öðrum um er mjög þungt. En að sama skapi veldur það því að maður tekur öðruvísi ákvarðanir eftir að hafa farið í gegnum svona ferli.”

Halldór og Hemmi Gunn voru mjög nánir vinir um árabil. Í viðtalinu við Sölva ræðir Halldór um vinskapinn og sorgina þegar Hemmi lét lífið:

„Við hittumst í nánast hverju einasta hádegi í áraraðir. Hann var mjög sérkennilega samsettur. Hæfileikarnir voru í bunkum á svo mörgum sviðum og hann var með afbrigðum skemmtilegur maður. En það er enginn sem hefur bara kosti og hann var augljóslega mjög breyskur líka. En þvílíkt sem hæfileikarnir voru endalausir. Ef hann hefði til dæmis tekið fótboltann alvarlega hefði hann orðið atvinnumaður í fremstu röð. Svo var hann líka mjög greindur og hann var með ofboðslega gott hjartalag. En vínið þvældist mikið fyrir honum og kom honum oft í vandræði. Eflaust var pressan líka mikil að vera þessi stórstjarna í svona litlu landi. Mér brá alls ekki þegar ég fékk símtalið þar sem mér var sagt að hann væri farinn. Ég hafði haft áhyggjur af honum lengi. Þegar hann hafði fengið hjartaáfallið nokkru áður var hann í raun mjög heppinn að lifa það af. Alltaf þegar hann talaði um að fara vestur í Dýrafjörð leið mér vel, en þegar hann sagðist vera að fara til útlanda fékk ég alltaf sting í magann.”

Þrír menn skrifuðu umsögn um Robert Downey þegar hann óskaði eftir uppreist æru árið 2014. Halldór er einn þeirra og segist hann enn sjá mikið eftir því:

„Í fyrsta lagi hefði ég aldrei getað skrifað upp á þetta ef ég hefði gefið mér tíma til að lesa dóminn yfir honum. Ég vissi ekki hvað hafði raunverulega gerst og þegar hann kom til mín hugsaði ég með mér hvort hann ætti ekkert líf framundan og fór líklega að vorkenna honum. En síðar hitti ég stúlkurnar, fórnarlömbin og pabbi einnar þeirra kom með og við reyndum að ræða þetta af heilindum og mér fannst það ganga vel. Það sem þær báðu mig um að kanna að gera var hvort ég gæti hreinlega afturkallað uppáskriftina og ég fór niður í dómsmálaráðuneyti til að ganga þeirra erinda. Þar hitti ég lögfræðing sem tjáði mér að það væri einfaldlega ekki hægt. Þannig að þó að ég hafi sannarlega viljað gera það var það ekki í boði. En ástæða þess að þetta fór svo hátt í fjölmiðlum var líklega vegna þess að ónefndur stjórnmálamaður blandaðist inn í málið,” segir Halldór og bætir við:

„Það er mjög skiljanlegt að það hafi orðið til sterkar tilfinningar í kringum þetta mál allt saman og eðlileg krafa að hækka ránna. En allt þetta mál er í raun bara hræðilegt og það sem hann gerði lætur mig bara fá hroll.”

Þegar Halldór lítur um öxl á sitt ótrúlega lífshlaup segist hann handviss um hvað hafi verið sín mesta gæfa:

„Ég er mjög lánsamur maður bæði hvað varðar fjölskyldu og að hafa unnið við eitthvað sem ég elska í öll þessi ár. Að kynnast konunni minni er mín mesta lukka. Hún hefur alltaf stutt við bakið á mér og unnið með mér. Það þarf sérstaka manneskju til að sigla með manni í gegnum svona lífshlaup og hún er bara ótrúlega flott kona.”


Tengdar fréttir


Fleiri fréttir

Sjá meira


×