Sport

„Ef við fáum þær í úrslitakeppninni þá þurfum við að spila betur en í dag”

Árni Gísli Magnússon skrifar
Stefán Arnarsson, þjálfari Fram.
Stefán Arnarsson, þjálfari Fram. Vísir/Hulda Margrét

Fram hafði betur gegn KA/Þór fyrir norðan í dag í næstsíðustu umferð Olís deildar kvenna. Fram hafði frumkvæðið allan leikinn en KA/Þór tókst að minnka muninn í eitt mark þegar mínúta lifði leiks en Fram gerði vel í lokin og landaði þriggja marka sigri. Lokatölur 25-28.

Stefán Arnarson, þjálfari Fram, var heilt yfir sáttur með frammistöðuna.

„Við vorum alltaf þrem, fjórum, fimm yfir og það var eiginlega allan leikinn svo minnkuðu þær í tvö þegar svona fjórar mínútur eru eftir en þá komum við með gott mark og vorum með þrjú en ég er í fyrsta lagi ánægður að vinna hérna”.

Fram leiddi leikinn nær allan tímann með nokkrum mörkum en þriggja til fjögurra marka forysta getur verið fljót að breytast eins og sannaðist í lok leiks í dag.

„Eins og við spilum líka, við spilum mjög hratt, og þetta getur farið á mínútu eða tveimur mínútum fjögur mörk en við stóðum vörnina vel allan leikinn og fengum ódýr mörk úr hraðaupphlaupum. Ég held að það sé ein af ástæðunum fyrir að við unnum.”

Fram er í 4. sæti og verður það hlutskipti liðsins í deildinni þó einn leikur sé eftir. KA/Þór er í 5. sæti eins og er og því líklegt að þessi lið mætist í úrslitakeppninni.

„Í fyrsta lagi eru alltaf erfiðir leikir á móti KA/Þór. Þær eru komnar með tvo sterka útlendinga, Rut og góðan markmann og bara gott lið. Þú þarft að spila vel til að vinna hérna og ef við fáum þær í úrslitakeppninni þá þurfum við að spila betur en í dag.”

„Ég er mjög ánægður með þennan leik og við erum með frábæran markmann, hún á svolítið inni, en varnarleikurinn mjög góður, hraðaupphlaup mjög góð og sóknin svona yfirleitt góð og við vorum að fá góð færi. Þegar þær ná að minnka muninn var það af því við vorum að klikka á dauðafærum en við náum alltaf að spila okkur í góð færi og ég er ánægður með það”, sagði Stefán að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×