Sport

„Við skulum ræða það á eftir í einrúmi“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aleksander Aamodt Kilde tekur hér sjónvarpsviðtal við kærustu sína Mikaela Shiffrin eftir metsigur hennar um helgina.
Aleksander Aamodt Kilde tekur hér sjónvarpsviðtal við kærustu sína Mikaela Shiffrin eftir metsigur hennar um helgina. AP/Alessandro Trovati

Bandaríska skíðakonan Mikaela Shiffrin endaði mettímabilið sitt með enn einu metinu um helgina og fékk að launum mjög óvenjulegt viðtal eftir keppni.

Shiffrin vann sína 21. stórsvigskeppni í heimsbikarnum og jafnframt sinn 88. sigur á heimsbikarmóti sem bæði eru met.

Eftir keppnina fékk Shiffrin líka bikarinn fyrir sigur í heildarkeppni heimsbikarsins en þetta er í fimmta sinn á ferlinum sem hún nær því.

Margir vildu fá að vita eitthvað um framhaldið hjá þessari 28 ára gömlu skíðakonu og þar á meðal var kærasti hennar sem er norski skíðakappinn Aleksander Aamodt Kilde.

Kilde tók nefnilega sjónvarpsviðtalið við kærustu sína eftir keppnina. Hvað tekur við?

„Ég veit ekki. Segið þið mér. Ég held bara áfram á mínu róli,“ sagði Mikaela Shiffrin en Kilde forvitnaðist þá um hvernig hún ætlaði að bæta sig fyrir næsta tímabil.

„Við skulum ræða það á eftir í einrúmi,“ svaraði Shiffrin.

Hún vann þrjú heimsbikargull á tímabilinu, í samanlögðu, í svigi og í stórsvigi. Hún vann heimsbikarinn í samanlögðu einnig 2017, 2018, 2019 og 2022 en var að vinna svigið í sjöunda sinn en í fyrsta sinn frá 2019.

Það má sjá viðtalið með því að fletta hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×