Sport

Ísland í keppni við þá bestu í heimi í sumar

Sindri Sverrisson skrifar
Vitor Charrua gæti verið á leið á heimsbikarmótið í pílukasti í sumar fyrir Íslands hönd.
Vitor Charrua gæti verið á leið á heimsbikarmótið í pílukasti í sumar fyrir Íslands hönd. Stöð 2 Sport

Ísland verður í fyrsta sinn með lið á heimsbikarmótinu í pílukasti sem fram fer í Frankfurt í Þýskalandi í sumar, dagana 15.-18. júní.

Margir af fremstu pílukösturum heims keppa á mótinu en Ástralía á titil að verja eftir að Damon Heta og Simon Whitlock fögnuðu sigri gegn Gerwyn Price og Jonny Clayton frá Wales í úrslitaleik í fyrra.

Verðlaunafé á mótinu nemur 450.000 pundum, jafnvirði rúmlega 75 milljóna króna, og fær sigurliðið jafnvirði 13,5 milljóna króna í sinn hlut.

Ísland komst inn á mótið eftir ákvörðun um að fjölga liðum úr 32 í 40. Auk Íslands koma Úkraína og Barein í fyrsta sinn inn á mótið.

Mótið hefst á riðlakeppni þar sem fjögur bestu liðin sitja hjá en hinum 36 liðunum verður skipt í tólf þriggja liða riðla, þar sem eitt lið mun komast upp úr hverjum riðli í 16-liða úrslitin. Þjóðirnar sem sitja hjá eru England (Michael Smit og Rob Cross), Holland (Michael van Gerwen og Danny Noppert), Wales (Gerwyn Price og Jonny Clayton) og Skotland (Peter Wright og Gary Anderson).

 Tveir bestu pílukastarar frá hverri þátttökuþjóð fá boð á mótið og að þessu sinni verður aðeins keppt í tvímenningsleikjum. Staðfest verður 5. júní hvaða tveir pílukastarar fara fyrir Íslands hönd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×