Sport

„Spilaði í kvöld fyrir vini mína og fjölskyldu“

Andri Már Eggertsson skrifar
Kristján Örn Kristjánsson í leik kvöldsins gegn Val
Kristján Örn Kristjánsson í leik kvöldsins gegn Val Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Kristján Örn Kristjánsson, leikmaður PAUC, var niðurlútur eftir níu marka tap gegn Val 40-31. Kristján opnaði sig í síðustu viku um andleg veikindi sem hann hefur verið að glíma við og sagði að hann hafi spilað gegn Val í kvöld fyrir vini sína og fjölskyldu.

„Valur spilaði hraðar en við. Valsarar voru grimmari í vörn og við vorum andlausir og því fór leikurinn eins og hann fór,“ sagði Kristján Örn Kristjánsson eftir tapið gegn Val. 

PAUC var þremur mörkum undir í hálfleik en í byrjun seinni hálfleiks var neisti í gestunum en Valsarar slökktu á öllum vonum Kristjáns og félaga með frábærri frammistöðu.

„Við leyfðum Björgvini [Páli Gústavssyni] að verja of marga bolta það var bara það. Við spiluðum ágætlega en hann lokaði markinu.“

Kristján Örn Kristjánsson sagði frá því í síðustu viku að hann hafi verið að glíma við kulnun og tók leyfi frá handbolta. Kristján sagði að dagarnir hafa verið erfiðir og hann spilaði í kvöld fyrir vini sína og fjölskyldu.

 

„Dagarnir hafa verið lélegir. Ég fann ákveðinn hug í því að koma heim og spila hér en það er bara eins og það er.“

„Ég gerði þetta fyrir fjölskylduna mína, ég gerði þetta fyrir vini mína. Það hefði mátt ganga betur en þetta fór eins og það fór,“ sagði Kristján Örn Kristjánsson að lokum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×