Sport

Gætu orðið fyrstu bræðurnir til að mætast í Super Bowl

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Travis Kelce með liðsfélögum sínum hjá Kansas City Chiefs þeim Chris Jones og Frank Clark.
Travis Kelce með liðsfélögum sínum hjá Kansas City Chiefs þeim Chris Jones og Frank Clark. Getty/Jason Hanna

Fjögur lið eru eftir í úrslitakeppni NFL og um helgina kemur í ljós hvaða lið mætast í Super Bowl leiknum í ár. Þar gætu tveir bræður frá Ohio fylki skrifað söguna.

Í úrslitaleik Þjóðardeildarinnar mætast San Francisco 49ers og Philadelphia Eagles en leikurinn fer fram á Lincoln Financial Field í Philadelphiu.

Í úrslitaleik Ameríkudeildarinnar mætast Cincinnati Bengals og Kansas City Chiefs en leikurinn fer fram á Arrowhead Stadium í Kansas City.

Bræðurnir sem gætu orðið þeir fyrstu til að mætast í Super Bowl eru þeir Travis Kelce og Jason Kelce.

Travis Kelce er innherji hjá Kansas City Chiefs og af flestum talinn sá besti í sinni stöðu í NFL-deildinni. Travis er 33 ára og vann NFL-titilinn með Kansas City liðinu fyrir þremur árum.

Eldri bróðir Travis er Jason Kelce sem er 35 ára og spilar sem senter hjá Philadelphia Eagles liðinu. Jason hefur líka orðið NFL meistari en hann vann titilinn með Eagles liðinu árið 2018.

Báðir bræðurnir eru meðal þeirra bestu í sinni stöðu og hafa verið lengi.

Jason hefur fimm sinnum verið valinn í úrvalslið tímabilsins og Travis hefur komist þangað fjórum sinnum.

Donna Kelce, móðir þeirra bræðra, er dugleg að mæta á leiki strákanna sinna og vakti athygli þegar hún náði að sjá báða leiki drengja sinna á sama degi.

Hún nær því þó ekki á sunnudaginn og hefur Donna ákveðið að mæta á leikinn hjá Jason Kelce þar sem Philadelphia Eagles tekur á móti San Francisco 49ers.

Hún verður örugglega á Super Bowl leiknum komist annar þeirra eða jafnvel báðir alla leið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×