Sport

Kostnaður við þjóðar­höll rúmir 14 milljarðar

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Samkvæmt áætlunum gæti höllin tekið 8.600 manns í sæti og allt að tólf þúsund manns á tónleikum.
Samkvæmt áætlunum gæti höllin tekið 8.600 manns í sæti og allt að tólf þúsund manns á tónleikum. Vísir/Vilhelm

Talið er að kostnaður við byggingu þjóðarhallar muni nema 14,2 milljörðum króna. Ráðgert er að höllin verði nítján þúsund fermetrar og taki 8.600 manns í sæti. Gangi áætlanir eftir gætu viðburðir farið fram í höllinni árið 2025.

Skýrsla um fyrirhugaða byggingu þjóðarhallar í Laugardalnum var lögð fyrir borgarráð í gær. Borgarstjóra var falið umboð til að ganga til samninga við ríkið um verkefnið, stofnkostnað og rekstur.

Skýrslan sjálf er trúnaðarmerkt en fyrirhugað er að greina frá efni hennar eftir helgi, samkvæmt umfjöllun Ríkisútvarpsins.

Þar segir að stefnt verði að því að reisa þjóðarhöllina sunnan við Laugardalshöll, nær Suðurlandsbraut. Ekki liggi fyrir hvernig kostnaður við bygginguna skiptist milli ríkisins og Reykjavíkurborgar.

Fréttastofa ræddi við Gunnar Einarsson, formann framkvæmdanefndar um nýja þjóðarhöll, á síðasta ári. Þar sagði hann að verkefnið gengi vel og að rífandi gangur væri í vinnunni.


Tengdar fréttir

Framkvæmdastjóri HSÍ segir að treysta verði því sem búið sé að segja og lofa

Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri Handknattleikssambands Íslands, segir að það eina sem virki í málefnum nýrrar þjóðarhallar sé að treysta því sem búið sé að segja og lofa. Laugardalshöllin var opnuð á nýjan leik um helgina, en handboltalandsliðin geta ekki leikið þar fyrr en í fyrsta lagi eftir áramót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×