Sport

Eygló keppir í 2650 metra hæð á HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eygló Fanndal Sturludóttir hefur átt frábært ár sem gæti orðið enn betra á þessu móti í Kólumbíu.
Eygló Fanndal Sturludóttir hefur átt frábært ár sem gæti orðið enn betra á þessu móti í Kólumbíu. Instagram/@eyglo_fanndal

Eygló Fanndal Sturludóttir er eini íslenski keppandinn á heimsmeistaramótinu í ólympískum lyftingum fer fram í Bogotá í Kólumbíu frá 5. til 16. desember.

Eygló Fanndal er mætt til Kólumbíu en hún mun keppa í 71 kíló flokki á sunnudagskvöldið að staðartíma sem aðfaranótt mánudagsins að íslenskum tíma.

Eygló er nýkjörin lyftingakona ársins eftir hreint stórkostlegt ár. Eygló náði hæstu Sinclair stigatölu allra kvenna á árinu 266.9 stig rúmum tíu stigum hærri en Þuríður Erla Helgadóttir sem hampað hefur afrekinu besta lyftingakonan síðustu sjö árin.

Eygló varð Íslandsmeistari í mars í -71 kílóa flokki kvenna og einnig stigahæsti kvenn keppandi mótsins. Hún varð í 9.sæti á Evrópumeistaramótinu í lyftingum í -71 kílóa flokki þegar hún lyfti 205 kílóum samanlagt. Hún kórónaði síðan glæsilegt lyftingaár með því að verða Evrópumeistari 23 ára og yngri þegar hún lyfti 97 kílóum í snörun og 120 kílóum í jafnhendingu sem voru ný íslandsmet í jafnhendingu og samanlögðum árangri.

Eygló segir frá komu sinni til Bógóta á samfélagsmiðlum en hún er að fara að keppa á sínu öðru heimsmeistaramóti á ferlinum.

Eygló talar þar um að Bógóta sé borg sem situr í 2650 metra hæð yfir sjávarmáli og hún þurfi því daga til að venjast þynnra andrúmslofti.

Hvannadalshnúkur á Öræfajökli er hæsti tindur Íslands en hann er bara í 2110 metra hæð eða fimm hundruð metrum neðar en þar sem Eygló keppir.

Það er því eins og hún sé að fara að keppa ofan á Ingólfsfjalli (551 metrar) sem er ofan á Hvannadalshnúk (2.110 metrar).

Alls eru 39 keppendur í -71kg flokknum hennar Eyglóar og er þeim raðað niður í fjóra keppnishópa (A,B,C og D) sem byggja á skráningarþyngd (entry total) sem er sú þyng sem keppandi skráir sig með inn í mótið í samanlögðum árangri úr snörun og jafnhendingu. Það þarf í raun ekki að byggja á raunverulegum árangri í keppni.

Sem dæmi er að Eygló lyfti 217 kílóum samanlagt þegar hún varð Evrópumeistari U23 ára 16. október síðastliðinn en hún skráir 221 kíló í skráningarþyngd.

Eygló keppti í fyrsta sinn á heimsmeistaramótinu 2021 í Tashkent í Úsbekistan og lyfti þar 202 kílóum sem var nýtt persónulegt met. Hún hefur því bætt árangur sinn um fimmtán kíló á árinu 2022 og skipað sér í flokk með allra bestu lyftingakonum í Evrópu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.