Fótbolti

Ís­land á flottan full­trúa meðal yngstu marka­skorara Meistara­deildarinnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hákon Arnar Haraldsson fagnar marki sínu fyrir FCK á móti Borussia Dortmund á Parken.
Hákon Arnar Haraldsson fagnar marki sínu fyrir FCK á móti Borussia Dortmund á Parken. Getty/Jan Christensen

Skagamaðurinn Hákon Arnar Haraldsson var einn af yngstu leikmönnunum sem náðu að skora í riðlakeppni Meistaradeildarinnar á þessu tímabili.

Hákon Arnar skoraði eina mark danska liðsins FC Kaupmannahöfn í allri riðlakeppninni þegar hann tryggði liðinu jafntefli á móti Borussia Dortmund í fyrrakvöld.

Hákon var aðeins nítján ára, sex mánaða og 23 daga þegar hann skoraði markið sitt. Hann var aðeins fjórði Íslendingurinn til að skora í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

Eins og sjá má hér fyrir neðan voru aðeins fimm yngri leikmenn sem náðu að skora í Meistaradeildinni í vetur.

Sá yngsti var Norðmaðurinn Antonio Nusa sem var aðeins 17 ára, 4 mánaða og 27 daga þegar hann skoraði fyrir Club Brugge. Nusa varð þá annar yngsti markaskorarinn í sögu Meistaradeildarinnar á eftir Barcelona stráknum Ansu Fati.

Manchester City strákurinn Rico Lewis varð næstyngstur þegar hann skoraði í fyrsta byrjunarliðsleiknum sínum með City sem var á móti Sevilla í fyrrakvöld. Lewis var aðeins 17 ára, 11 mánaða og 12 daga í gær.

Þriðji yngsti markaskorari vetrarins var António Silva hjá Benfica sem var átján ára, ellefu mánaða og 24 daga þegar hann skoraði á móti Juventus.

Fjórði á listanum er síðan Jude Bellingham hjá Borussia Dortmund sem 19 ára, tveggja mánaða og átta daga þegar hann skoraði fyrsta markið sitt í Meistaradeildinni í vetur.

Liverpool strákurinn Harvey Elliott var síðan bara fimmtán dögum yngri en Hákon þegar hann skoraði fyrir Liverpool á móti Rangers.

Það er mjög gaman að sjá íslenskan fulltrúa á listanum hér fyrir neðan.


Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.