Sport

Sigur­vegarinn í Boston mara­þoninu 2021 féll á lyfja­prófi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Diana Kipyokei kemur í mark í Boston. Nú virðist sem sigur hennar verði þurrkaður út.
Diana Kipyokei kemur í mark í Boston. Nú virðist sem sigur hennar verði þurrkaður út. Maddie Meyer/Getty Images

Diana Kipyokei frá Kenía kom sá og sigraði í Boston maraþoninu á síðasta ári. Hún hefur nú verið dæmd í keppnisbann eftir að falla á lyfjaprófi. Sömu sögu er að segja af Betty Wilson Lempus, einnig frá Kenía.

Hin 28 ára gamla Kipyokei og hin 31 árs gamla Lempus hafa einnig verið ákærðar af AIU [Athletics Integrity Unit] fyrir að veita rangar upplýsingar og fölsuð vottorð. Báðar greindust með „triamcinolone acetonide“ í blóðinu. Efnið hefur verið á bannlista Alþjóða lyfjaeftirlitsins frá árinu 2014.

Alls hafa tíu hlauparar frá Kenía greinst með „triamcinolone acetonide í blóðinu frá því á síðasta ári en til samanburðar hafa aðeins tveir íþróttamenn frá öðrum löndum greinst með efnið á sama tíma.

Verði Kipyokei fundin sek verður sigur hennar í Boston maraþoninu tekinn af henni og tími hennar strokaður út. Sama á við um sigur Lempus í hálfmaraþoninu í París á síðasta ári.

Á dögunum var Mark Kangogo, hlaupari frá Kenía, dæmdur í þriggja ára bann af AIU eftir að „triamcinolone acetonide“ og „norandrosterone“ fannst í blóðinu hans. Ekki er ljóst hversu langt bann Kipyokei og Lempus gætu átt yfir höfði sér en reikna má með að það verði svipað og bann Kangogo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×