Fótbolti

Anna Björk og stöllur hennar kláruðu botnliðið í fyrri hálfleik

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Anna Björk Kristjánsdóttir og stöllur hennar í Inter tróna á toppi ítölsku úrvalsdeildarinnar.
Anna Björk Kristjánsdóttir og stöllur hennar í Inter tróna á toppi ítölsku úrvalsdeildarinnar. Vísir/Getty

Anna Björk Kristjánsdóttir og stöllur hennar í Inter Milan unnu öruggan 1-3 sigur er liðið heimsótti Como í ítölsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld.

Öll mörk leiksins voru skoruð í fyrri hálfleik, en Elisa Polli kom gestunum í Inter í forystu strax á 12. mínútu leiksins. Tatiana Bonetti tvöfaldaði forystu gestanna með marki af vítapunktinum stundarfjórðungi síðar áður en Polli var aftur á ferðinni og breytti stöðunni í 0-3 rúmum fimm mínútum fyrir hálfleikshléið.

Heimakonur náðu að klóra í bakkann fyrir hlé þegar Giulia Rizzon minnkaði muninn í 1-3 með marki af vítapunktinum í uppbótartíma fyrri hálfleiksins og þar við sat.

Niðurstaðan því 1-3 sigur Inter sem trónir enn á toppi ítölsku úrvalsdeildarinnar með 13 stig eftir fimm umferðir, fjórum stigum meira en Roma, Sampdoria og Fiorentina sem eru jöfn í öðru til fjórða sæti og eiga leik til góða. Como situr hins vegar sem fastast á botninum með aðeins eitt stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×