Umfjöllun Breiðablik - Þróttur 2-3 | Blikar köstuðu frá sér Evrópumöguleikanum í fyrri hálfleik

Dagur Lárusson skrifar
Þróttarkonur.
Þróttarkonur. Vísir/Hulda Margrét

Breiðablik þurfti á sigri að halda til að halda í von sína um að landa Evrópusæti í lokaumferð Bestu-deildar kvenna í knattspyrnu í dag. Liðið mátti hins vegar þola 2-3 tap gegn Þrótti eftir að hafa lent 0-3 undir í fyrri hálfleik og Evrópudraumur þeirra því úti.

Fyrir leikinn var Breiðablik í þriðja sæti deildarinnar og þurfti að sækja sigur í dag og treysta á að Stjarnan myndi misstíga gegn Keflavík til þess að ná öðru Meistaradeildar sætinu.

Það leit þó allt út fyrir það að það hafi verið Þróttur sem væri í leit að Meistaradeildar sæti í byrjun leiks ef marka má spilamennsku liðanna. Á aðeins þriðju mínútu leiksins var staðan orðin 0-1 en þá fékk Danielle boltann hægra megin og lék listir sínar með hann áður en hún gaf boltann út í teiginn á Murphy sem skaut viðstöðulaust og endaði boltinn í hægra horninu og gestirnir því komnir með forystuna.

Eftir þetta mark tók við kafli þar sem Breiðablik var nánast eingöngu með boltann og leit allt út fyrir að jöfnunarmarkið væri skammt undan en það kom þó aldrei. Í staðinn áttu gestirnir frábæra skyndisókn á Murphy fékk boltann mitt á milli miðju og teigs og gaf hárnákvæma sendingu inn fyrir vörn Breiðabliks á Ólöfu Freyju sem þakkaði kærlega fyrir sig og kláraði fram hjá Evu í markinu. Staðan orðin 0-2 en gestirnir létu það sér ekki nægja heldur kom þriðja markið sex mínútum síðar en þá fékk Danielle boltann aftur hægra megin og fór inn á teig þar sem hún lék á tvo varnarmenn áður en hún potaði boltanum í vinstra hornið. Staðan orðin 0-3 og þannig var hún í hálfleiknum.

Í seinni hálfleiknum gerði Ásmundur, þjálfari Breiðabliks, tvöfalda skiptingu þar sem hann setti þær Clöru og Hafrúnu Rakel inn á en sú skipting átti eftir að borga sig því Hafrún skoraði með sinni fyrstu snertingu strax á 47. mínútu. Þá tók Agla María aukaspyrnu rétt utan teigs en Íris Dögg náði að verja skot hennar en blakaði þó boltanum í átti að Hafrúnu sem þurfti lítið annað að gera en að ýta boltanum yfir línuna.

Breiðablik var með öll völdin á vellinum á þessum tímapunkti og kom annað markið níu mínútum síðar en það kom eftir hornspyrnu frá Öglu Maríu sem Karitas Tómasdóttir skallaði í netið. Staðan orðin 2-3 og allt benti til þess að jöfnunarmarkið væri á leiðinni.

Það kom þó aldrei þrátt fyrir endalausa sóknarhrinu heimaliðsins og voru því lokatölur 2-3 og það verður því Stjarnan sem fer með Val í Meistaradeild Evrópu.

Af hverju vann Þróttur?

Fyrri hálfleikur Breiðabliks var hreint út sagt ekki boðlegur fyrir lið sem vill ná Meistaradeildarsæti. Liðið var eins og skugginn af sjálfum sér og Þróttur voru með verðskuldaða 0-3 forystu í hálfleikinn.

Hverjir stóðu upp úr?

Murphy Alexandra Agnew var frábær í liði Þróttar, skoraði eitt mark og lagði upp annað og var allt í öllu í sóknarleik liðsins.

Hvað fór illa?

Ásmundur var ekki klár á því hvað hafi ollið frammistöðu síns liðs í fyrri hálfleiknum í viðtali eftir leik en það var sú frammistaða sem lagði grunninn að þessum sigri.

Ásmundur Arnarsson: Mjög ólíkt okkar stelpum

,,Ég er eiginlega bara í sjokki með það hvernig við byrjuðum þennan leik,” byrjaði Ásmundur Arnarsson, þjálfari Breiðabliks, í viðtali eftir leik.

,,Þetta var mjög ólíkt okkar stelpum hvernig við komum inn í þennan leik. Við byrjuðum auðvitað á að gera hrikaleg mistök og gefa þeim eitt mark en svo í framhaldinu, eða í fyrri hálfleiknum, þó náum við okkur aldrei upp og vorum hikandi í öllum okkar aðgerðum,” hélt Ásmundur áfram.

,,Það var eins og við hefðum verið slegnar út af laginu með því að fá eitt mark á okkur og á endanum er staðan 3-0 í hálfleik sem er bara ekki boðlegt.”

Ásmundur var sáttari með seinni hálfleikinn.

,,Í seinni hálfleiknum þá breyttist allt og við vorum líkari sjálfum okkur. Við komum sterkari til leiks og skorum tvö mörk og þau hefði getað verið fleiri en það dugði ekki til.”

Aðspurður út í tímabilið í heildina var Ásmundur óviss en viðurkenndi vissulega að missa af Meistaradeildar sæti væri alls ekki gott.

,,Það var margt gott við þetta tímabil eins og það að komast í bikarúrslit og vera með í titilbaráttunni þar til í síðustu umferð en lokaniðurstaðan er vissulega svekkjandi,” endaði Ásmundur á að segja.

Nik Chamberlain: Í fyrsta sinn sem við vinnum Breiðablik

,,Já ég er mjög sáttur því þetta er í fyrsta sinn sem við höfum unnið Breiðablik,” byrjaði Nik Chamberlain, þjálfari Þróttar, að segja eftir leik.

,,Að koma á þeirra heimavöll og ná sigri er hreint út sagt frábært og við náðum markmiði okkar sem var að vera með fleiri stig heldur en á síðasta tímabili,” hélt Nik áfram.

,,Í fyrri hálfleiknum vorum við nokkuð góðar, við réðum vel við löngu boltana þeirra og héldum góðri línu og síðan urðum við smá heppin í tvö skipti en við áttum það skilið. Mörkin sem við skoruðum voru flott skyndisóknarmörk og það var einmitt það sem við lögðum upp með.”

,,Í seinni hálfleiknum komu þær aðeins til baka eins og við var að búast og þær náð að skora tvö mörk sem ég var ekki nægilega sáttur með en við náðum að halda markinu hreinu eftir það og sigla sigrinum heim og þess vegna er ég hæstánægður, bæði með leikinn og tímabilið í heildina,” endaði Nik á að segja.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.