Fótbolti

Sviss gerði Portúgal greiða

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Cristiano Ronaldo fagnar með Diogo Dalot en bakvörðurinn gerði sér lítið fyrir og skoraði tvö mörk í kvöld.
Cristiano Ronaldo fagnar með Diogo Dalot en bakvörðurinn gerði sér lítið fyrir og skoraði tvö mörk í kvöld. Thomas Eisenhuth/Getty Images

Tveir leikir fóru fram í A-deild Þjóðadeildarinnar í fótbolta í kvöld. Portúgal vann 4-0 stórsigur á Tékklandi á meðan Sviss vann óvæntan 2-1 sigur á Spáni.

Diogo Dalot, hægri bakvörður Manchester United skoraði óvænta tvennu í öruggum 4-0 sigri Portúgals í kvöld. Bruno Fernandes, annar leikmaður Man United, skoraði einnig sem og Diogo Jota, leikmaður Liverpool. Patrich Schick brenndi af vítaspyrnu fyrir heimamenn í stöðunni 0-2.

Á sama tíma var mættust Spánn og Sviss. Manuel Akanji, nýjasti leikmaður Manchester City, kom Sviss yfir og þannig var staðan í hálfleik. Jordi Alba jafnaði metin fyrir Spán í síðari hálfleik áður en Breel Embolo kom Sviss yfir á nýjan leik eftir sendingu Akanji.

Reyndist það síðasta mark leiksins og Sviss vann 2-1 útisigur. Úrslit kvöldsins þýða að Portúgal er á topp riðilsins með 10 stig þegar ein umferð er eftir. Spánn er í öðru sæti með átta stig, Sviss í þriðja með sex og Tékkland á botninum með fjögur.

Portúgal og Spánn mætast í næstu viku í leik sem Spánverjar þurfa að vinna ætli þeir sér í undanúrslit Þjóðadeildarinnar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.